151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þegar ég beindi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um horfur um bóluefni þann 3. desember í fyrra voru svör ráðherra þau að raunhæft væri að horfa til fyrsta ársfjórðungs, fyrri hluta þess tímabils. Ég skildi orð ráðherrans þannig að við værum þá að tala um tímabilið þegar bólusetning gæti hafist. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra í kjölfar þess að misvísandi svör höfðu borist, annars vegar frá forstjóra Lyfjastofnunar, sem talaði um við gætum verið langt komin með þetta verkefni strax í byrjun janúarmánaðar, og hins vegar frá sóttvarnalækni sem talaði á hinn bóginn um raunhæfa bjartsýni og að ótímabært væri að álykta að við yrðum langt komin eða jafnvel að hefjast handa í þessum efnum í janúarmánuði. Mér sýnist hann hafa reynst, eins og oft áður, rödd raunsæis hér. Vissulega erum við byrjuð en væntingar fólks voru, held ég, að skrefin í þessum efnum yrðu stærri, m.a. kannski vegna þess hversu margir eru að tjá sig um málið, ýmist af hálfu stjórnvalda eða ekki. Aftur voru þessi mál rædd þann 18. desember og í grundvallaratriðum hefur staðan ekki breyst mikið síðan þá, þ.e. þegar samtalið átti sér stað hér í þingsal þann 18. desember.

Frá upphafi sóttvarnaaðgerða hefur verið ljóst í mínum huga að þessum sterku sóttvarnaaðgerðum þurfi að fylgja sterkar efnahagsaðgerðir. Eins og við þekkjum öll er hver dagur okkur gríðarlega dýr, efnahagslega sem og félagslega. Það blasir auðvitað við. Sú staðreynd felur ekki í sér neitt annað en að það er sá veruleiki sem við búum við. Aðgerðirnar hafa auðvitað verið okkur nauðsynlegar og í þágu almannahagsmuna en við vitum öll að kostnaðurinn af þeim er gríðarlegur. Hann er margþættur og flókinn, efnahagslegur, félagslegur og sálrænn. Afleiðingin er atvinnuleysiskreppa og það er kreppa ólík þeim sem við höfum mætt hér innan lands oftast nær áður sem hafa birst í veikingu krónunnar og verðbólgu sem hefur haft í för með sér kaupmáttarrýrnun allra eða flestra. En þegar eftirspurnin hverfur með þessum hætti alfarið á ákveðnum sviðum með þungum og dramatískum afleiðingum og áhrifum á fyrirtæki og fólk í þeim atvinnugreinum verður niðurstaðan atvinnuleysiskreppa sumra. Hópurinn er ansi stór, 21.000 manns í upphafi ársins og 26.000 þegar við teljum með þá sem eru enn á hlutabótum.

Í samhengi við óvissuna, sem er vitaskuld erfitt við að eiga og íslensk stjórnvöld geta auðvitað ekki ein leyst þá stöðu, en einmitt vegna hennar held ég að það skipti svo miklu að stjórnvöld séu samstiga í upplýsingagjöf, auki ekki á óvissu og að upplýsingar sem veittar eru séu skýrar. Hvað efnahagslegu óvissuna varðar held ég að erfið svör séu einfaldlega jafnvel betri en engin svör eða óljós í þessari stöðu. Bóluefnið er þegar öllu er á botninn hvolft forsenda þess að samfélagið geti náð efnahagslegum bata, að fólk fari að ferðast að nýju og verja tíma sínum saman, að hjólin fari að snúast aftur.

Spurningin mín lýtur að efnahagslegum áhrifum sóttvarnaaðgerðanna. Eins og ég nefndi er óvissa með ferlið allt saman og tímalínuna og upplifun fólks er að ferlið sé að dragast á langinn. Getur ráðherra upplýst okkur um hvaða vinna hefur átt sér stað í ríkisstjórn Íslands vegna þessara efnahagslegu áhrifa? Dragist bólusetningin lengur en fram á mitt ár og jafnvel fram á haust, (Forseti hringir.) hefur ríkisstjórnin þá látið meta með einhverjum hætti hver efnahagsleg áhrif verða ef til þess kæmi?