151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hagfræðin er ekki í öfundsverðri stöðu. Henni er ætlað að taka saman og setja töluleg gildi á samansuðu allrar mannlegrar hegðunar og henni er gert að flokka það niður eftir ótal aðferðum og henni er gert að hafa rétt fyrir sér. Yfirleitt er það gert með því að ganga út frá því að stöðugleiki sé algengasta fyrirkomulagið þrátt fyrir að bara á síðustu 20–30 árum hafi orðið tugir peningamarkaðsbresta, stór hrun, minni hrun o.s.frv. Það gengur svo langt að maður gæti jafnvel haldið því fram að óstöðugleiki sé í rauninni það eina sem er stöðugt í hagkerfinu. Í öllu þessu er til fyrirbæri sem heitir verðbólga, sem er okkar mat á því hvað verð hækkar. Hæsta verðbólga sem hefur sést, eða alla vega verið mæld, var upp á 4,19 sinnum 10 í 16. veldi prósent. Það er tala sem er svo stór að ég get ekki einu sinni sett hana í samhengi án þess að reyna að umbreyta henni á einhvern hátt. Það er kannski auðveldara að hugsa um hana sem tvöföldun á öllum verðum á 15 klukkutíma og 20 mínútna fresti. Á 15 klukkutíma fresti þá tvöfölduðust verð. Þetta var í Ungverjalandi í júlí 1946. Ísland hefur komið töluvert skár út í verðbólgustríðinu en eitt versta tilfellið hér á landi var um 84% verðbólga. Það er einmitt í slíkum brjáluðum kringumstæðum, þegar verðbólga er svona rosalega mikil, að brugðist er við með lagasetningu eða einhvers konar inngripi til að reyna að ná tökum á ástandinu. Besta dæmið um það sem ég hef séð var í Brasilíu þar sem var hreinlega búinn til nýr gjaldmiðill sem átti að sýna hvernig stöðugleikinn virkaði og svo einn daginn var gjaldmiðlinum hreinlega skipt út.

Á Íslandi var farin önnur leið eftir að öll fasteignalán voru étin upp af 84% verðbólgu. Einhver komst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að verja bankana, það þyrfti að setja bankana í betri stöðu, þannig að verðtryggingin var fundin upp. Verðtrygging er svo sem ekkert óalgeng milli ríkja eða innan stórra fyrirtækja og bankakerfisins en hún er rosalega óalgeng í heiminum gagnvart neytendum. Neytendalán eru nánast hvergi verðtryggð. En hér var þetta gert. Ég vil meina að verðtryggingin sé miskunnarlaus fátæktargildra sem hefur fest tvær kynslóðir í það minnsta, jafnvel fleiri, í fátækt. Verðtryggingin hefur gert það að verkum að ótal margir sem fóru út á fasteignamarkaðinn fyrir jafnvel áratugum síðan eiga svo til ekki neitt í eignum sínum í dag. Hluti af ástæðunni fyrir því er að langflestir endurfjármagna lán sín innan sjö ára eða á um það bil sjö ára fresti. En það vill þannig til að þegar maður er með 40 ára verðtryggt fasteignalán fer höfuðstóllinn ekki að minnka neitt að ráði fyrr en eftir rúmlega sjö ár þannig að eignarhluturinn safnast mjög hægt upp, ef þá nokkurn tímann. Ég segi bara: Loksins, loksins, loksins erum við að tala um það af alvöru, með frumvarpi frá ríkisstjórn, að takmarka þetta. Mikið var.

Ástandið er þó því miður ekki alveg jafn gott og ég hefði viljað vegna þess að við erum ekki að afnema verðtrygginguna, eins og það hefur verið kallað. Við erum ekki að koma í veg fyrir verðtryggingu á neytendalánum heldur er eingöngu verið að takmarka hana á þann hátt að hún gildi bara fyrir lán af ákveðinni lengd o.s.frv., en við erum ekki að loka alfarið á að verðtryggð neytendalán séu til. Þar af leiðandi er ég sammála hv. þm. Willum Þór Þórssyni og mörgum öðrum sem hafa talað hér í dag og fyrir helgi um að við ættum að ganga alla leið. Í stað þess að afnema verðtryggingu fullkomlega, er hún takmörkuð og takmörkuð á þann hátt að ef þú ert nógu ungur eða nógu fátækur þá ætlar ríkisstjórnin með þessu frumvarpi náðarsamlegast að bjóða þér upp á að ganga í fátæktargildru. Það er nokkurn veginn fyrirkomulagið. En ef við myndum fjarlægja allar þær undantekningar sem koma fram í 1. gr. frumvarpsins og segja bara: Út með verðtryggð neytendalán, þá gerum við ekki þau mistök. Það er breytingin sem við þurfum að gera.

Þetta eru rosalega einföld skilaboð sem ég kem með hingað í dag. Við þurfum bara að fjarlæga þetta vegna þess að það á ekki að velta allri eða nánast allri áhættu yfir á neytendur og lántaka. Bankarnir verða að deila þessari áhættu. Það er fullkomlega eðlilegt. Þannig virkar það í öllum öðrum löndum. Á meðan verðtrygging er yfir höfuð leyfð á neytendalánum munu bankar komast upp með það að hafa óverðtryggða vexti töluvert hærri vegna þess að þar taka þeir til sín hluta af áhættunni. Þetta er ekki góð hugmynd og við ættum að hætta með þessar fátæktargildrur. Við ættum að hætta að bjóða hættunni heim. Ég skil hvers vegna þetta varð til á sínum tíma. Þetta voru viðbrögð við ótrúlega óþægilegu ástandi, 84% verðbólgu, en við vitum betur. Eftir margra áratuga reynslu vitum við að þetta er vont fyrirkomulag og við eigum bara að gjöra svo vel að fjarlægja það í einu og öllu.