151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[20:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar hér við 1. umr. um frumvarp til laga frá samgönguráðherra, um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga, að leggja nokkur orð í púkkið og þá bara um 1. gr. málsins og afleidda þætti þess. Það kom mér nokkuð á óvart, svo ég segi það alveg eins og er, að málið kæmi fram lítt breytt til þingsins eftir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var 18. desember sl., hvað varðar þau kjarnarök, sem ávallt hefur verið stuðst við, að sátt sé um það og það sameiginleg sýn sveitarfélaga heilt yfir að leiðin til frekari sameiningar sveitarfélaga sé lögþvingun. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fór í ræðunni á undan prýðilega yfir feril þess máls og hvernig það var til komið og án nokkurs vafa hafa fleiri farið yfir það í ræðum hér fyrr um þetta mál.

Fréttirnar sem bárust af landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga upp úr miðjum desember voru þeirrar gerðar að ég taldi þessar lögþvingunaræfingar niður fallnar af því að það var augljóst að ekki var sátt um málið. Fulltrúar smærri sveitarfélaga höfðu haldið fram sínum sjónarmiðum, og fengið litlar þakkir fyrir, en þeir virtust hafa haft býsna mikið til síns máls. Á landsþinginu 18. desember lögðu 20 af minni sveitarfélögum landsins fram tillögu um að horfið yrði frá þeirri afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga að styðja fullum fetum þá leið að fara í lögþvingaða sameiningu þar sem hún næðist ekki fram með öðrum hætti innan tiltekinna tímamarka. Tillagan var vissulega felld en það var með 67 atkvæðum gegn 54. Höfum í huga að hvert þeirra litlu sveitarfélaga sem lögðu tillöguna fram hefur eitt atkvæði og á sama tíma hefur Reykjavíkurborg 21, þ.e. Reykjavíkurborg hefur ein og sér fleiri atkvæði en öll þau 20 sveitarfélög sem lögðu tillöguna fram, og atkvæðafjöldi Akureyrarbæjar nær að mig minnir langleiðina í þá tölu. Það sýnir að ef hvert sveitarfélag hefði haft eitt atkvæði er alveg augljóst að þetta hefði verið kolfellt, þessi nálgun sambandsins, en alltaf hafði verið rætt á þeim nótum að við þá nálgun væri yfirgnæfandi sátt og stuðningur. Mér finnst skipta máli að við höfum það í huga þegar við nálgumst þetta mál núna svona lítið breytt.

Í 1. gr. er fjallað um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé 1.000 og síðan er farið í undanþáguákvæði þar sem ráðherra er heimilt, með leyfi forseta, „að veita tímabundna undanþágu frá lágmarksíbúafjölda í allt að fjögur ár og í eitt skipti ef sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélag geti myndað stjórnsýslulega heild með nærliggjandi sveitarfélögum“.

Þær undanþágur eða frestanir sem eru til staðar í frumvarpinu eru ekki til langs tíma eða skipta miklu máli í sjálfu sér í stóra samhenginu því að líftími sveitarfélags um einhver tvö eða fjögur ár til eða frá, þegar horft er á stóru myndina, er ekki kjarni umræðunnar. Það er prinsippákvörðunin sem nú er lögð til, af hendi hæstv. sveitarstjórnarráðherra, að þessi lögþvingunarleið verði fær. Við það vil ég gera miklar athugasemdir.

Áfram er í 5. gr. fjallað um þætti sem snúa að því með hvaða hætti ferlið er þegar lögþvingun skal keyrð í gegn. Ég ítreka að þetta er ekki það sem ég reiknaði persónulega með að kæmi fram, því að vissulega er ýmislegt í málinu ágætt og byggist á þingsályktun sem var samþykkt í þinginu í janúar 2020. En þetta atriði er því miður enn hérna inni. Ég vona bara að það verði skoðað í umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem ég og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, sem ég sé hér í salnum, og fleiri sitjum og ég vona að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra taki ekki hart til varna fyrir þetta tiltekna atriði málsins.

Í ræðum hér fyrr í dag hefur ýmislegt komið fram og stenst kannski ekki allt skoðun. Því hefur m.a. verið haldið fram að Covid-ástandið fari sérstaklega illa með minni sveitarfélög þegar það blasir við að ástandið er sýnu verst í Reykjanesbæ, sem verður nú seint talinn eitt af minni sveitarfélögum landsins. Þegar öllu er á botninn hvolft er ástandið sennilega alverst í Reykjavíkurborg ef við horfum á fjárhagsstöðu þess sveitarfélags, þótt til allrar lukku fyrir borgarsjóð sé borgin laus við alla túrista, miðað við skýrslu þess apparats sem útlistaði að af komu túrista til landsins og veru þeirra í Reykjavíkurborg væri milljarðatjón á ári fyrir borgina. En staðreyndin er engu að síður sú að sennilega eru fá sveitarfélög ef nokkur jafn að fótum fram komin fjárhagslega og Reykjavíkurborg. Það bendir ekki til þess að stærðarhagkvæmnin vinni sérstaklega með höfuðborg Íslands. Smærri sveitarfélög sem eru rekin af miklu meiri hófsemd og skynsemi skila miklu betri rekstrarniðurstöðu en þeirri sem við sjáum þar.

Fram hafa komið sjónarmið um að með einhverjum hætti þyrfti að ná utan um og skilgreina hvað sé sjálfbært sveitarfélag. Ein af þeim skilgreiningum sem ég heyrði hæstv. ráðherra leggja til var að horft væri til þess hvaða þjónustu sveitarfélag gæti staðið undir, hvort það væri t.d. þjónusta á sviði fötlunarmála eða rekstur grunnskóla. Eitt og annað slíkt nefndi ráðherra sem mögulega skilgreiningu á því hvað sjálfbært sveitarfélag þýddi. En þá horfum við á höfuðborgarsvæðið þar sem blasir kannski við mesta þörfin fyrir sameiningu á löngum köflum en þau sveitarfélög sem hér eru reka til að mynda ekki hvert og eitt sorphirðu eða slökkvilið. Það er allt saman sameiginlegt í byggðasamlögum. Þannig að þau rök finnst mér í öllum meginatriðum fallin því að auðvitað er hægt að ná samstarfi sveitarfélaga á einhverjum samhangandi svæðum í gegnum byggðasamlög úti á landi, rétt eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó virðast menn hafa sérstakt lag á því að missa byggðasamlögin úr böndunum hér á höfuðborgarsvæðinu.

Jafnframt hefur öldrunarþjónusta verið nefnd en þar er staðan auðvitað sú að mörg sveitarfélög reka hjúkrunarheimili, þar á meðal lítil sveitarfélög eins og Skagaströnd, Grýtubakkahreppur, Langanesbyggð og Vopnafjörður, svo einhver séu nefnd. Vanfjármögnun ríkisins hefur leitt til þess að fjögur sveitarfélög hafa nýlega sagt upp samningi við ríkið um rekstur þeirra. En það athygliverða er að það eru ekki litlu sveitarfélögin sem eru að segja upp samningi sínum við ríkið. Það eru Akureyri, Vestmannaeyjar, Fjarðabyggð og Hornafjörður. Hvernig rímar það við þann málflutning að litlu sveitarfélögin geti ekki verið burðug? Eins og stundum vill verða fer ekki saman hljóð og mynd.

Mig langar einnig að benda á atriði í 13. gr. frumvarpsins sem snýr að breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilt að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. af tekjum sjóðsins […] utan þeirrar fjárhæðar sem skal renna til málefna fatlaðs fólks, á hverju ári á tímabilinu 2020–2035 til að safna fyrir sérstökum framlögum úr sjóðnum sem koma til vegna sameiningar sveitarfélaga, sbr. a-lið 11. gr.“

Þegar málið var kynnt í upphafi er mér til efs að sveitarstjórnir landið um kring hafi skilið það sem svo að hvatinn til sameiningar, sem sagt þessar ívilnandi fjárhagslegu aðgerðir gagnvart sveitarfélögunum, væri að sveitarfélögin væru að fara að borga það sjálf úr jöfnunarsjóði, af peningum sem að öðrum kosti væru til ráðstöfunar í hefðbundin verkefni sjóðsins. Ég held að rétt sé að halda því til haga að sú gulrót sem var flaggað fyrir framan sveitarfélög við upphaf vinnslu málsins komi á endanum úr jöfnunarsjóðnum sjálfum og taki þá fjármuni frá öðrum verkefnum sjóðsins. Auðvitað er hægt að fagna því út frá því að verja stöðu ríkissjóðs hverju sinni og þar fram eftir götunum, en mér finnst skipta máli að það liggi alveg fyrir og enginn misskilningur sé í þeim efnum.

Umhverfis- og samgöngunefnd fær þetta mál væntanlega til meðferðar eftir að umræðunni lýkur núna rétt á eftir. Ég sit í þeirri nefnd og hlakka til að takast á við málið en ég reikna með því, eins og umræðan hefur borið með sér hér á undan, að það verði verulega umdeilt. Öll rök sem tengjast þessari meintu sátt og samstöðu um lögþvinguðu sameininguna féllu, þau dóu þann 18. desember sl. Það er svo sem ágætt, þá er hægt að byrja þessa umræðu á því að taka á efnislegu rökunum. En rökin um samstöðu sveitarfélaga hvað þetta varðar eru frá og voru raunverulega aldrei til staðar, sem er auðvitað umhugsunarefni hvað varðar það hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga lagði málið upp.

Ég ætla að láta þessu lokið núna. Ég vil samt, til að allrar sanngirni sé gætt, segja að það er ýmislegt ágætt í þessu máli og það verður auðvitað skoðað og mögulega er einhverjar bætur hægt að gera á þeim þáttum. Heilt yfir væri þetta ágætismál ef ekki væri fyrir þá lögþvinguðu sameiningu sem þarna er í rauninni lögð til aftur. Við þurfum að bera gæfu til þess að skipta þessu máli í tvennt, annars vegar í þann þátt sem er mjög umdeildur og ég vona að við vindum ofan af hér í þinginu og hins vegar í aðra þætti málsins sem snerta þingsályktun um sveitarfélögin sem var samþykkt hér í byrjun árs 2020.