151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

115. mál
[21:31]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir flest af því sem hv. þingmaður sagði í sinni ágætu ræðu. Það er ærin ástæða til að drífa í því að koma þessari tillögu í gegn og fara í þær framkvæmdir sem þörf er á til að hún geti orðið að veruleika. Það eru auðvitað ýmsar framfarir í tækni tengdar flugi og eitt kom fram í ræðu hv. þingmanns, þ.e. að geta kveikt á flugbrautarljósum með því að slá inn ákveðna tíðni og senda skilaboð. Sú tækni er í fyrsta lagi alls ekki ný. Hún er í raun mjög gömul, en er víða notuð á Íslandi, t.d. á Hellu, og er mjög gagnleg. En í tilfelli Hornafjarðarflugvallar er þetta óþarfi vegna þess að þarna eru fín flugbrautarljós, PAPI-ljós o.fl., þannig að þetta er í raun ekki endilega gagnlegt þarna. Aftur á móti er mjög margt sem væri gagnlegt á Hornafjarðarflugvelli. Þar ber kannski helst að nefna ILS-kerfi sem eru rosalega dýr og flókin o.fl. En einhvern veginn þarf að fara að ná kostnaði niður við að gera þessa hluti og byggja upp öruggari flugbrautir. Ég vildi bara nefna þetta vegna þess að þetta svona stóð út af í annars mjög góðri ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar. Ég er sammála kjarnanum í skilaboðunum hjá honum, þarna er tækifæri til að gera miklu betur. Þetta snýst um öryggi, sérstaklega þeirra sem eru að koma að utan og þarna getum við gert góða hluti.