151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég hef bara eina spurningu og hún lýtur að 5. tölulið 1. gr. Þar segir:

„Inngrip: Götun eða skurður í húð eða ísetning áhalds eða framandi efnis í líkamann eða rannsókn á líkamsholi. Með inngripi er ekki átt við læknisrannsókn á eyra, nefi og munni, hitamælingu með eyrna-, munn- eða hörundshitamæli, eða hitamyndatöku, læknisskoðun, hlustun, ytri þreifingu, sjónuspeglun, töku þvag-, saur- eða munnvatnssýnis utan frá, mælingu blóðþrýstings utan frá eða hjartalínurit.“

Inngrip er sem sagt götun eða skurður í húð eða ísetning áhalds eða framandi efnis í líkamann eða rannsókn á líkamsholi. Komið hafa fram athugasemdir, veit ég, um að í þessu sé heimild til að setja flögu, sem er væntanlega úr einhverjum málmi eða öðru slíku, undir húð. Getur hv. þingmaður farið yfir það með mér hvort hafa þurfi áhyggjur af þessu, hvort það sé réttur skilningur að þetta feli í sér heimild til þess að setja einhverja míkróflögu undir húð sem væri hægt að skanna með ýmsum hætti? Eru þær áhyggjur sem hafa verið reifaðar við mig varðandi það á rökum reistar? Það væri gott ef hv. þingmaður gæti farið yfir það og þennan lið sérstaklega, hvað hann feli í sér nákvæmlega.