151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að við hugsum stórt. Það er alveg sérstaklega heppilegt að við hugsum stórt og tölum um það, ég og hv. þingmaður, því að mér skilst að hvorugur okkar ætli að leita eftir endurkjöri þannig að við verðum ekki til að sakast við ef þetta skyldi samt ganga eitthvað treglega á næsta kjörtímabili. Við þekkjum það auðvitað báðir og vitum öll að seint verður hægt að skipuleggja starfsemi lifandi samkundu, pólitískrar samkundu sem samanstendur af mörgum flokkum og ólíkum mönnum, út í hörgul eins og um hefðbundna efnislega framleiðslustarfsemi væri að ræða, enda held ég að það eigi ekki að vera markmið. Þá gætum við farið of langt í þá áttina og gelt það sem þarf líka að vera hluti af orkunni hér á þinginu eða hluti af því að geta tekist á við aðstæður og verið lifandi samkunda. En það væri að sjálfsögðu hægt að taka risaskref í því að auka verulega fyrirsjáanleikann ef menn næðu almennt að áætla og semja um þann tíma sem væri hóflegur til umræðu um mál, ef almennt starfsáætlanir fastanefnda héldu nokkuð vel, ef almennt þingmálaskrá ríkisstjórnar stæðist þannig að mál bærust nákvæmlega á þeim tíma sem áætlaður var o.s.frv. Það þarf margt til til þess að hægt sé að skipuleggja störfin hér betur en við eigum alltaf að vera að reyna og gera okkar besta. Mér þótti vænt um að hv. þingmaður nefndi þá tilraun sem við ætlum að gera núna í febrúar og mars, að breyta aðeins uppsetningu þingvikunnar í von um að það hjálpi til í þessum efnum. Mér finnst það bara út af fyrir sig mikilvægt að Alþingi þori að takast á við, eftir atvikum, einhverja smátilraunastarfsemi af því tagi. Það breytist ekkert ef við þorum ekki að reyna og þorum ekki að fara aðeins upp úr hjólförunum í þessum efnum.

Við skulum hafa trú á því að heldur sé þetta nú að þokast í rétta átt og það finnst mér það vera að gera (Forseti hringir.) þrátt fyrir allt, með undantekningum sem nú má eiginlega telja á fingrum annarrar handar. (Forseti hringir.) Til nokkurra ára litið þá hefur starfið gengið nokkuð skipulega og vel fyrir sig.