151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[14:59]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir þessa góðu skýrslu og góðu samantekt um núverandi stöðu fríverslunarmála og utanríkisviðskipta Íslands. Þetta er gagnleg skýrsla, bæði til að sjá styrkleika og veikleika. Ég ætla að fara svolítið yfir það en minnast á að það eina sem mér finnst leiðinlegt við þessa umræðu er að hún kemur í veg fyrir að ég geti verið á öðrum fundi um alþjóðaviðskipti hjá EFTA-nefndinni sem er akkúrat á sama tíma. Ég held að við forseti eigum báðir að vera þar, en svona er þetta, það er mikið að gera.

Ég vil byrja á því að nefna að þrátt fyrir að þetta sé góð skýrsla og fari yfir mjög marga hluti þá bárust okkur tvær skýrslur úr utanríkisráðuneytinu í desember 2020 og önnur þeirra er hnausþykk og mjög svo áhugaverð skýrsla, þó að ég hafi ekki náð að lesa hana alla, um Grænland og mikilvægi samstarfs við það. Svo er það þessi tiltölulega þunna, í þeim samanburði, skýrsla um utanríkisviðskipti. Án þess að gera lítið úr Grænlandi né heldur þessari skýrslu, vegna þess að hún er í raun ágæt, eru nokkrir hlutir sem mér finnst vanta í hana. Ég hefði talið að öll utanríkisviðskipti Íslands gætu alla vega verið jafn mikið umfjöllunarefni og Grænland, bara svo það sé sagt. Hér vantar t.d. greiningu á vannýttum tækifærum okkar í alþjóðaviðskiptum þar sem núverandi stefna innan lands í ýmsum málum er að þvælast fyrir okkur og koma í veg fyrir að við náum að auka okkar alþjóðaviðskipti. Þar mætti t.d. nefna stefnu okkar í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, verndarstefnu okkar þar sem hefur þvælst fyrir okkur í samskiptum við mörg lönd og mun auðvitað verða til þess að hamla stækkun og uppbyggingu á t.d. framleiðslutækni þar sem við eigum mjög mörg vannýtt tækifæri. Hvalveiðar Íslands voru nefndar áðan en þær hafa einnig þvælst fyrir okkur, eru að skaða okkur, eru að grafa undan tækifærum okkar. En svo er bara svo margt annað sem ég get ekki einu sinni gert mér í hugarlund þar sem við gætum verið að sækja inn á önnur mið, verið að stunda ríkari viðskipti við aðrar þjóðir og er alveg ástæða til að kortleggja það nánar. Þarna eru bara rosalega mörg tækifæri.

Við verðum að átta okkur á því að heimsmyndin er ekki sú sama og fyrir 30 árum. Eftir kalda stríðið skapaðist ákveðið jafnvægi í heimsmyndinni sem einkenndist af uppgangi Evrópu, mikilvægi Ameríku og þess háttar, en nú horfum við fram á mikinn uppgang í Asíu og þar eru vannýtt viðskiptatækifæri, mikinn uppgang í Afríku þar sem, eftir því sem ég fæ best séð, við erum ekki einu sinni að reyna að sækja viðskiptatækifærin nema kannski helst á Nígeríumarkaði, sem er þó góður markaður. En ég myndi telja að það væri ótrúlegur akkur í því fyrir land eins og Ísland að verða fyrsta landið til að ná heildstæðum og almennum fríverslunarsamningi við Afríkusambandið sem heild. Þarna er tækifæri til að búa til grunn fyrir alþjóðaviðskipti við heila heimsálfu á einu bretti. Þetta er samtal sem er flókið og tæki tíma en þetta myndi gjörbreyta okkar stöðu í alþjóðaviðskiptakerfinu.

Við verðum líka að átta okkur á að Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur verið undir miklu álagi undanfarin ár. Ekki hefur verið hægt að skipa dómara við alþjóðaviðskiptadómstólinn, það hafa verið undir trumpisma ákveðnar árásir á stofnunina og fleira í þeim dúr og það hefur veikt stöðu allra og Covid kemur náttúrlega þar ofan í. Það er reyndar vel farið yfir Covid og viðbrögð utanríkisráðuneytisins við því ástandi í skýrslunni, það er mjög vel gert og var vel að verki staðið þannig að ég fagna því. En í ljósi þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur fengið þessi högg á sig verðum við kannski annars vegar að leggja mikinn metnað í að reyna að leysa þau vandamál sem eru til staðar, þau eru mörg og þau eru flókin. Hitt er að við ættum kannski líka að leita svolítið inn á við í það að nýta Íslandsstofu enn betur. Hún er vel nýtt en hún gæti verið nýtt betur. Sömuleiðis þarf að byggja upp frekara net af sendiskrifstofum og viðskiptaskrifstofum hér og þar um heiminn til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sækja í viðskiptasamninga og byggja upp sitt viðskiptanet.

Bara til að undirstrika aftur það sem ég var að tala um varðandi framleiðslutækni þá nefndi ég í umræðu á dögunum orkuskipti í flugi. Þarna er massíft ónýtt tækifæri fyrir Ísland ef við myndum búa okkur undir það að geta farið á alþjóðamarkaði. Í staðinn fyrir að vera bara neytendur nýjustu tækni í flugi, eða hverju sem er, gervigreind, það sem hefur verið kallað fjórða iðnbyltingin o.s.frv., værum við framleiðendur, sköpuðum framtíðina og flyttum hana út til allra. Það er tækifæri sem Ísland hefur. Við höfum hugvitið. Við erum náttúrlega lítil þjóð þannig að við getum ekki ætlað okkur of mikið. En það má ekki horfa fram hjá því að sumar af takmörkunum okkar í alþjóðaviðskiptum eru hreinlega vegna þess að innlendar stofnanir og innlendar stefnur eru oft ekki alveg í réttu samhengi við útflutning. Þess vegna hafa Píratar, með aðkomu Framsóknarflokksins, ítrekað lagt til sjálfbæra iðnaðarstefnu vegna þess að þar höfum við möguleika á því að samstilla stefnu okkar í nýsköpun og atvinnuþróun og þess háttar við utanríkisviðskiptastefnu og láta þetta flútta saman, láta þetta efla hvort annað. Þau lönd sem hafa staðið sig best í utanríkisviðskiptum í gegnum árin eru þau sem sjá þau sem beint og eðlilegt framhald af sinni innanríkisatvinnustefnu. Þarna eru tækifæri, þörf á meiri samvinnu o.s.frv.

Ég ætla að láta þetta gott heita og þakka aftur fyrir þessa ágætu skýrslu. Við sjáum kannski útgáfu tvö einhvern tímann á næstunni.