151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:47]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Takk. Ég fagna því að þetta frumvarp sé lagt fram. Eins og Píratar segja skiptir ekki öllu máli hvaðan góð mál koma. Ég fagna þessu því á Íslandi hefur verið svolítið mikið ósamræmi í því sem ég kýs að kalla aldurslöggjöf. Hér á landi má ferma fólk 14 ára, við byrjum að greiða skatta 16 ára, megum ganga í hjónaband 18 ára og kaupa áfengi 20 ára. Hinn pólitíski óvilji til að lækka kosningaaldurinn um einvörðungu tvö ár vekur upp hjá mér ýmsar spurningar, þá fyrst og fremst við hvað gömlu flokkarnir eða íhaldssömu flokkarnir eru hræddir. Er hræðsla til staðar? Hvað myndi gerast ef kosningaaldurinn yrði lækkaður? Eins og hv. þm. Andrés nefndi hér áðan komu á fund allsherjar- og menntamálanefndar í gær grunnskólanemendur sem mynda hópinn Menntakerfið okkar til að kynna umsögn sína um menntastefnu sem nú liggur fyrir. Mér þóttu það mjög hjálplegar athugasemdir frá krökkunum og það sýnir að við þurfum að hlusta á notendur kerfanna okkar til að geta búið til kerfi sem henta notendum. Í kynningu þeirra kom t.d. fram að þau eru að læra það sama og ég lærði fyrir 20 árum í svokallaðri tölvunarfræði. Mig hefði ekki grunað að þetta væri staðan ef krakkar sem eru að þroskast innan þessa kerfis núna hefðu ekki komið og sagt okkur frá því. Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sýnir okkur að við þurfum að hlusta á yngri aldurshópana. Ég tel að lægri kosningaaldur gæti aukið áhuga ungs fólks á stjórnmálum sem hefur farið dvínandi síðustu árin.