151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:50]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á að vera heldur seinn fyrir en ég var grandalaus um hversu fljótt þetta gekk fyrir sig. Ég vildi nú samt sem áður koma hingað og flytja nokkur orð um þetta mál sem ég tel að sé mikilvægt. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við gerum ungu fólki kleift að taka fyrr þátt í því að móta samfélagið, móta þau viðhorf sem ráða ríkjum hverju sinni og taka þátt í að móta reglur samfélagsins. Ég tel að 16 ára sé fólk ekkert verr í stakk búið til að taka afstöðu til ýmiss konar grundvallaratriða. Ég held að það sé almennt ekkert verr eða betur í stakk búið en margir á öðrum aldri. Þá held ég að það sé líka mjög mikilvægt að sem flest sjónarmið komist til skila í stjórnmálastarfi landsins, innan stjórnmálaflokkanna. Stjórnmálaflokkarnir sjálfir bjóða ungt fólk velkomið til starfa og í vaxandi mæli setjum við okkur markmið og reglur um að hlusta vel eftir því sem ungt fólk segir og hvetjum það til þátttöku með ýmsu móti. Það skýtur því skökku við ef við á sama tíma viljum svo ekki veita því raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif. Þetta er grundvallaratriði í mínum huga. Þá er líka rétt að hafa í huga að aldurssamsetning þjóðarinnar er smátt og smátt að taka breytingum. Sem betur fer náum við flest talsvert hærri aldri en áður var. Við getum sagt að á síðustu árum og áratugum hafi margir árgangar bæst við í hóp kjósenda sem ná háum aldri. Þungamiðjan eða miðjan í kjósendahópnum hefur því verið að færast til. Hún hefur verið að færast til eldri kynslóðanna á kostnað hinna yngri. Ég held að þess vegna sé líka mjög mikilvægt að við reynum aðeins að sporna við þeirri þróun og hleypa yngra fólki að því kerfi sem lýðræðið okkar byggist allt saman á, að fólk geti látið í ljós skoðanir sínar með atkvæði sínu.

Síðan má enn færa frekari rök fyrir þessu með því að benda á að kjósandi sem er ungur að árum er að kjósa um — við skulum orða það þannig að hann hefur í sjálfu sér víðari sjóndeildarhring að því leyti að hann er að móta framtíð sína til mjög margra ára meðan við sem aldurinn færist smátt og smátt yfir höfum að þessu leyti e.t.v. þrengra sjónarhorn, þó að öll viljum við vera víðsýn og teljum okkur flest svo sem geta sett okkur í spor annarra og hugsað um mál sem kannski varða okkur ekki beint. Engu að síður er þetta nú staðreynd. Þess vegna held ég að skynsamlegt sé að reyna að hleypa ungu fólki meira að. Það er á þeim grundvelli sem ég tel að það sé rétt skref sem lagt er til með frumvarpinu og að það sé alls engin hætta á ferðum, alls enginn skaði. Ég held að við eigum að treysta ungu fólki. Það hefur oft og tíðum önnur viðhorf til tilverunnar en við sem eldri erum, viðhorf sem taka síðan breytingum. Auðvitað hugsa ég sjálfsagt öðruvísi núna en ég gerði þegar ég var 16 ára. Það er ekki þar með sagt að hugsun mín til samfélagsins þegar ég var 16 ára hafi verið eitthvað verri en hugsunin sem ég hef í dag, síður en svo. Ég held að við þurfum á því að halda að hafa sem flest sjónarmið í því að stýra landinu okkar og það gerist auðvitað með því fyrirkomulagi sem við höfum í gegnum starf stjórnmálaflokkanna og síðan kosningar til ábyrgðarstarfa í samfélaginu, hvort sem það er á sveitarstjórnarstigi eða varðandi landstjórnina sjálfa. Ég styð þetta mál því af heilum hug enda einn flutningsmanna þess og ég tel að það væri framfaraskref ef þetta yrði samþykkt.