151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

ÖSE-þingið 2020.

490. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. ÍÖSE (Gunnar Bragi Sveinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta snjalla andsvar. Fyrst vil ég aðeins koma inn á að öll sú andúð og það ofbeldi sem höfum séð breiðast alls staðar út gagnvart einstökum hópum er áhyggjuefni. Ekki er hægt að réttlæta neitt gagnvart einhverjum einum hóp frekar en öðrum. Það er bara ekki hægt að réttlæta þetta. Það er bara ekki þannig. Sem betur fer er, og vonandi verður það áfram, meira umburðarlyndi á Íslandi. Við getum haft alls konar skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera, eins og hefur komið upp hér í þessum ræðustól í dag, en við viljum öll hugsa vel um það fólk sem er hjá okkur, vill iðka sína trú eða hvaðeina. Það var því mjög áhugavert að hlusta á þennan ágæta mann flytja mál sitt.

Og starfsreglurnar: Búið er að semja drög að nýjum starfsreglum sem taka á þessu. Ég vona að þær verði samþykktar þannig að ÖSE-þingið verði ekki áhrifalaust eða algerlega lamað í einhvern lengri tíma eins og við höfum séð.

Varðandi þá tillögu sem hv. þingmaður nefndi hér um minningardag þá finnst mér það vel til fundið að minnast helfararinnar því að þetta er einhver sá mesti voðaatburður sem við höfum séð í mannkynssögunni, í það minnsta sem við þekkjum úr sögubókum. Auðvitað hafa voðaatburðir gerst áður, það þekkjum við, en þetta er skelfingin ein og við eigum að sjálfsögðu að gera allt til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Og ég myndi styðja það að halda slíkan minningardag. Ég verð hins vegar að nota tækifærið og segja, af því að við höfum séð hér ákveðnar breytingar, að banna kannski ákveðnar skoðanir eða banna mönnum að skila ákveðnum gögnum til okkar, að ég hef óbeit á því sem þar stóð, svo að ég segi það nú bara. Við þurfum samt að fara varlega í það hvað við bönnum og hvað við bönnum ekki.