151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

skimun fyrir krabbameini.

486. mál
[14:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hyggst leggja fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um skimun fyrir krabbameini. Ég lagði fram fyrirspurn til skriflegs svars til hæstv. heilbrigðisráðherra á 150. löggjafarþingi og fékk ítarleg og góð svör, en þar var ég fyrst og fremst að spyrja hvort ráðherra hygðist standa við þá ákvörðun sína að færa framkvæmd skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til ríkisins. Fleiri spurningar voru lagðar fram og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þau ítarlegu svör sem þar komu fram.

Óhætt er að segja að sú breyting sem gerð hefur verið á fyrirkomulagi krabbameinsskimana hafi valdið töluverðum usla og af fréttaumfjöllun er hægt að draga þá ályktun að hér sé um eitthvert klúður að ræða, en ég vil einmitt frekar eiga þetta samtal hér við hæstv. ráðherra um það, þ.e. hvað hæstv. ráðherra sjái fyrir sér sem framtíð þessa mikilvægu hluta, sem eru krabbameinsskimanirnar, og hvernig þeim væri best fyrir komið.

Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er:

„Hver er afstaða ráðherra til tillagna skimunarráðs um að hækka aldur kvenna sem boðaðar eru í brjóstaskimun úr 40 árum í 50 ár?“

Nú er mér kunnugt um að hæstv. ráðherra hefur frestað þeirri ákvörðunartöku, en ég held engu að síður að það sé ástæða til að við ræðum það til framtíðar því að ljóst er, og allir geta lesið sér til um það í tillögum frá skimunarráði, að þetta er tillaga þeirra og fyrir því hafa þau ákveðin rök. Engu að síður verð ég að koma því sjónarmiði á framfæri að ég taldi að konur ættu að eiga kost á brjóstaskimun frá fertugsaldri, kjósi þær svo, þó að það að kannski sé lögð meiri áhersla á að boða konur frá 50 ára aldri.

Einnig spyr ég:

„Hvernig standast tillögur skimunarráðs samanburð við slíka skimun annars staðar á Norðurlöndunum?

Hvaða lönd eru eða hafa verið talin til fyrirmynda þegar kemur að skimun fyrir krabbameini? Hvernig hefur Ísland komið út í þeim samanburði fram til þessa?“

Virðulegur forseti. Þó að ég spyrji sérstaklega um brjóstaskimanir er ég í rauninni að tala um skimanir fyrir krabbameini almennt. Ég held að það sé ágætt núna í marsmánuði þar sem við fögnum mottumars, þar sem segir einn fyrir alla og allir fyrir einn, að við ræðum líka mikilvægi skimana fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Þá langar mig að minna á að 17. mars árið 2017 var samþykkt í þessum sal þingsályktunartillaga sem fyrrverandi hv. þm. Drífa Hjartardóttir og fleiri þingmenn lögðu fram, sem hafði reyndar oft verið lögð fram, og fyrirspurn í kjölfarið, þar sem samþykkt var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á þeim tíma í samráði við landlækni að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig gengur að koma þeirri mikilvægu skimun á?