151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[17:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vona að tíminn endist mér til að fara yfir þá punkta sem mig langar til að koma að varðandi þetta mál. Þeir eru ansi margir. Ég vil byrja á því að minna á þá voveiflegu staðreynd að vofa fasismans bankar á dyrnar. Nýfasisminn er í uppsiglingu eins og hv. 3. þm. Suðvest. fór hér yfir, bæði vestan hafs og austan. Við sjáum það í Þýskalandi, Ungverjalandi, Bandaríkjunum jafnvel, uppgang afla sem er fullkomlega málefnalegt og rétt að kalla nýfasísk. Það sem átti sér stað 6. janúar á þessu ári við þinghús Bandaríkjanna var valdaránstilraun fasista. Venjulega þegar svona orð eru notuð þá hneykslast fólk vegna þess að þau eru mjög oft notuð sem einhver gífuryrði en það er eins og sagan um drenginn sem hrópaði sífellt úlfur, úlfur; fyrr eða síðar kemur úlfur. Hann er kominn. Við getum talað um Viktor Orbán og að hann sé stoltur af því að hafa fundið upp hugtakið „illiberal democracy“ sem á íslensku mætti útleggjast sem ófrjálslynt lýðræði, hann er stoltur af því. Það er brjáluð hugmynd. Síðan vitum við að starfrækt er, vonandi mjög smá, nasistagrúppa á Íslandi. Það virðast reyndar bara vera einhverjir tveir gaurar að hengja upp límmiða og þykjast vera hetjur fyrir það. Ég ætla ekki að nefna samtökin á nafn, finnst þau ekki eiga það skilið. En ég hef hins vegar lesið ýmislegt á vefsíðu þeirra og það er ágætt rannsóknarefni að fara út í það hvernig manneskjur geti trúað þeirri sturluðu þvælu sem þar kemur fram.

Ég vil hafa það algerlega á hreinu að ég er sammála hv. þingmanni, sem leggur fram þetta frumvarp, um vandamálið, og ég hef verulegar áhyggjur af því og mér líst ekki á blikuna ef ég á að segja alveg eins og er. Þá tek ég einnig undir það að þetta er ekki bara erlent vandamál. Við getum ekki látið eins og það sé bara útlensk ógn. Í fyrsta lagi hafa útlenskar ógnir tilhneigingu til að verða íslenskar með tímanum. Í öðru lagi er þessi ógn þess eðlis að hún er óhugsandi þar til hún verður skyndilega mjög „hugsandi“ og mjög yfirþyrmandi á mjög skömmum tíma. Þó að hér á Íslandi hafi ekki enn gerst eitthvað eins og valdaránstilraunin í Bandaríkjunum getur það alveg gerst og við verðum að vera meðvituð um það og þá verða það fasísk öfl sem gera það að mínu mati, miðað við stöðuna eins og hún er núna.

Ég er þó ekki sammála efni frumvarpsins. Ég er sammála um vandamálið en ekki um lausnina. Vegna þess að hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir fór hér yfir ýmis atriði sem hún svaraði sérstaklega þá langar mig að taka sérstaklega fram hvað ég geri ekki ágreining um. Ég geri ekki ágreining um alvarleika uppgangs nýfasismans, fordóma eða valdhyggju almennt. Ég geri ekki ágreining um það að helfararafneitun sé á meðal orðræðu nýfasista og næstum því hvergi annars staðar og að hún sé skaðleg. Þá geri ég ekki heldur ágreining um það að frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

Mannfólk er ekki gott í sannleiksleit. Það er að mínu mati stærsta mýtan sem við búum við, að við séum almennt góð í því að gera greinarmun á sönnu og ósönnu, því sem er raunverulegt og því sem er óraunverulegt. Sagan og mannlegt samfélag sýnir mjög skýrt að það er ekki tilfellið og ekkert sýnir það betur en vísindaleg aðferð, þar sem hægt er að beita henni yfir höfuð. Trúarleg og menningarleg sannfæring trompar mjög gjarnan staðreyndaleit og rökfræði og í þessu samhengi trúir fólk, jafnvel stórir hópar af fólki, alveg ótrúlegustu vitleysu. Þá þarf ekkert að tala um einhver dægurmál eins og hin eða þessi trúarbrögð sem við hér inni getum öll talið órökrétt eða röng, heldur hópa eins og þá sem hafna helförinni. Það er galin skoðun. Helförin er sennilega einn best staðfesti sögulegi atburður sem nokkurn tímann hefur verið ritað um, mjög líklega, ég þori ekki að fullyrða það svo sem en það kæmi mér á óvart ef svo væri ekki, ef ég á að segja alveg eins og er.

Síðan eru hópar eins og þeir sem eru í Bandaríkjunum og víðar, einnig á Íslandi meðan ég man, sem eru kallaðir QAnon. Það er gróðrarstía þvælu og haturs af stærðargráðu sem ég hef ekki séð í lífinu áður og hef ég þó áhuga á þvælu. Ég hef beinlínis áhuga á því að kynna mér heimskuleg sjónarmið, rökvillur og bull og hef haft það skrýtna áhugamál í mörg ár. Ég þyrfti aðra ræðu til að fara yfir það reyndar. En þetta snýst svo sem ekki um mig.

Þá verða 5G-samsæriskenningar vinsælli og vinsælli. Þær eru svo sem ekki það hættulegar enn þá, eftir því sem ég fæ best séð, nema í samhengi við QAnon og spila þar auðvitað einhverja rullu. Síðan eru Covid-19 samsæriskenningar eins og í Plandemic, sem er ein lélegasta heimildarmynd sem ég hef í lífi mínu séð og hef ég séð þær margar lélegar. En það er ótrúlegt að fólk trúi þessum hlutum. En eins og ég segi, mannfólk er ekki gott í því að gera skil á milli hins sanna og hins ósanna. Við erum ekki góð í því af náttúrunnar hendi.

En þá fer ég að koma aftur að efni frumvarpsins, sem er að það er hafsjór af vitleysu sem ýtir undir útlendingaandúð, fordóma og valdhyggju í gangi, ekki bara þetta. Þetta er dropi í hafið af þvættingi sem í dag tælir og laðar fólk að nýfasískum hreyfingum með það í hyggju að umbylta lýðræðinu með valdi og koma á fót einræði.

Þá þarf ég aðeins að tala um tjáningarfrelsið. Ég geri ekki ágreining um að þetta frumvarp standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu en á Íslandi eru takmarkanir á tjáningarfrelsi, og í Evrópu almennt, gjarnan, ef ekki alltaf, ræddar út frá lagalegu sjónarmiði. Spurningin er hvort það standist stjórnarskrá, sjaldnar hvort hugmyndin um takmörkun á tjáningarfrelsi sé yfir höfuð góð. Þetta eru tvær ólíkar spurningar. Nær takmörkunin á tjáningarfrelsinu þeim markmiðum sem henni er ætlað að ná? Og mun hún hafa hliðaráhrif sem eru neikvæðari en ætlunin er? Mér finnst þar fyrir utan reyndar tjáningarfrelsisverndin í íslenskri stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu allt of veik, en ég ætla ekki nánar út í það hér, ég hef einfaldlega ekki tíma til þess.

Ég vil nefnilega meina að þetta frumvarp sé slæm hugmynd. Ég held að það valdi meiri skaða en það lagi. Nú var nýlega þýdd á íslensku bók, arfaléleg eins og sést á titlinum einum, ég ætla ekki heldur að auglýsa hana. Ég geri ráð fyrir því að það hafi átt einhvern þátt í því að þetta frumvarp er lagt fram þótt af nægu sé að taka, af tilefnum. Ég fann þessa bók á ensku, dettur ekki í hug að borga fyrir hana, vegna þess að ég ætla ekki að fjármagna þessa vitleysinga og lái mér það hver sem vill, en þar sést aftur, ef maður les vitleysuna sjálfur, hvað það er sem sannfærir fólk um vitleysuna. Ekkert sannfærir nýfasista meira um réttmæti málstaðar síns en svona lög. Það eru nákvæmlega svona lög sem þeir halda á lofti og segja: Sjáið, hérna er sönnunin fyrir því að okkar nýfasíska, ógeðslega hugmyndafræði er sönn. Með öðrum orðum: Þetta færir þeim vopn í hendur. Það er eitt af því sem ég hef áhyggjur af.

Oft er bent á að svona sé löggjöf víða í Evrópu. Það er alveg rétt, m.a. í Þýskalandi og Frakklandi. Þá vil ég benda á að það eru ekki sögur af árangri í baráttunni við nýfasisma. Alternative für Deutschland-flokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og sá þriðji stærsti á þýska þinginu, Bundestag. Það hefur ekki tekist að kveða niður nýfasismann, jafnvel ekki í Þýskalandi, þrátt fyrir þessi lög. Við skulum ekki líta á svona lög sem einhvern minnisvarða um að okkur sé að ganga vel í baráttunni við nýfasismann. Það er ekki þannig.

Hv. þingmaður nefndi einnig mann sem var dæmdur á sínum tíma fyrir hatursáróður, fyrir að afneita helförinni, og það fór alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu og hv. þingmaður rakti þá sögu ágætlega. Það gaf þessum náunga platform. Það sneri sviðsljósinu að honum, sem ég veit að var ekki ætlunin, en hættan er að það gerist, að þetta beini einmitt sviðsljósinu að þessari þvælu og fólkinu sem heldur þvælunni fram. Það er ein af hliðarverkununum sem ég óttast að verði. Þetta er kannski ekki dropi en kannski einhverjar ausur, alla vega hluti af hafsjó af þvættingi sem elur á fordómum og hatri og veldur uppgangi nýfasismans.

Ég sat hér úti í sal og var að fletta upp hinum og þessum dæmum um vitleysu og það var ekkert mál að finna hluti sem ég get ekki séð hvernig væri hægt að koma undir löggjöf sem hatursorðræðu, og hvað þá sem helfararafneitun, en er mjög bersýnilega ætlað að sannfæra fólk um að hvítt fólk sé í útrýmingarhættu í Evrópu og þurfi að taka Evrópu til baka frá vondum útlendingum. Það er ekkert mál fyrir nýfasistana að halda þeirri orðræðu uppi án þess að brjóta lög. Þar kem ég hugsanlega að því sem mér finnst mest misskilið við nálgunina sem við verðum að taka. Það er hægt að ljúga með staðreyndum í röngu samhengi. Það er hægt að afvegaleiða og ljúga og löggjöf lagar það ekki. Það er nauðsynlegt, burt séð frá helfararafneitun, að hinn almenni borgari sé í stakk búinn til að gera þennan greinarmun þegar vitleysan stígur fram. Ef staðan er sú að hinum almenna borgara er í dag ekki treystandi til að lesa bókina sem ég nefndi hér áðan án þess að sannfærast um helfararafneitun, þann fráleita málstað, þá þurfum við að laga það og ég vil benda á að það er óháð þessu frumvarpi. Hvort sem þetta frumvarp verður að lögum eða ekki þá þarf samt að gera það vegna þess að vitleysan er svo mikil, svo yfirþyrmandi. Ein af skuggahliðum internetbyltingarinnar er að þvættingur, vel sannfærandi, vel pródúseraður eins og er sagt á kvikmyndamáli, leikur lausum hala og sannfærir fullt af fólki um alls konar vitleysu sem elur á hatri og sundrung. Það eru þjóðríki sem ýta undir þetta með leyniþjónustum, beinlínis og bókstaflega, þannig að ekki er myndin björt og ekki er ég að gera lítið úr vandamálinu, það er mjög alvarlegt og yfirþyrmandi.

Þá má spyrja: Hvað eigum við að gera? Ég er satt best að segja ekki mjög bjartsýnn, óháð þessari löggjöf. Ég tel mig hins vegar vita fyrir víst að hatursorðræðulöggjöf getur kannski breytt einhverju en ég held ekki að hún hafi mikil áhrif, vissulega ekki til lengdar. En almennt er ruglingur milli annars vegar þess að einhver takmörkun á tjáningarfrelsi sé lögmæt eða heimil eða standist reglur eða stjórnarskrár og hins vegar hvort það sé góð hugmynd.

Nú verð ég aðeins að kvarta yfir hægrinu svokallaða, vegna þess að ég varð svolítið þreyttur á því á tímabili hvað hið svokallaða vinstri væri gjarnt á að beita þöggunartilburðum og valdbeitingu til þess að stjórna skoðunum fólks og þá gerðist það nefnilega, þegar ég var u.þ.b. að fara að kvarta undan vinstrinu svokallaða, að Donald Trump, sem að mínu mati er nýfasisti, og það á ekki að vera hneykslanlegt að benda á það að mínu mati, var sparkað af Twitter og þá reis hægrið upp á afturfæturna og fór að kvarta undan því að honum væri gert skylt að standa við skilmála sem hann sjálfur samþykkti þegar hann fór inn á vefinn, í miðri valdaránstilraun, og þá þótti hægrinu það brot á tjáningarfrelsi. Auðvitað ræður Twitter sjálft sinni ritstjórnarstefnu, alveg eins og Morgunblaðið ræður sinni. Mér féllust eiginlega hendur þegar ég fór að sjá þetta vegna þess að mér finnst umræðan um tjáningarfrelsið alltaf vera á kolröngum stað. Þetta snýst ekki um það hvort þetta standist stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála Evrópu. Það er ekki spurningin, virðulegi forseti. Hún er grundvallaratriði, hún er botninn á umræðunni. Allt ofan á það snýr að því hvort það er góð hugmynd að takmarka tjáningarfrelsi. Ég held að svo sé ekki. Ég held að það styrki nýfasistana, ég óttast það alla vega, og það vekur alls konar óþægilegar spurningar í kringum önnur voðaverk í heiminum og hvenær við séum komin inn á það að stjórna skoðunum með löggjöf.

Þá hjó ég eftir einu í ræðu hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur sem ég heyri mjög oft frá þingmönnum og það er hugmyndin um að breyta almennum hegningarlögum til að senda skilaboð. Ég er á þeirri staðföstu sannfæringu þegar kemur að löggjöf, og sérstaklega hegningarlögum, að það sé ekki hugurinn sem gildi heldur áhrifin. Ég er á móti því að nota lögin til að senda skilaboð. Skilaboðin sem við þurfum að senda eru þau að fólk í lýðræðissamfélagi beri þá ábyrgð að geta séð og heyrt heiminn sem við búum í, þar á meðal ofbeldiskvikmyndir, klám, lygar og afvegaleiðingar, án þess að breytast í fasista. Það er grunnkrafan sem við verðum að setja lýðræðisfyrirkomulaginu sjálfu. Það gengur út frá þessu sem vísu og ef þetta er ekki tilfellið er lýðræðið veikt.

Að því sögðu vil ég ítreka á lokasekúndunum að vandinn sem á að leysa með þessu frumvarpi er yfirþyrmandi og raunverulegur. Við eigum að taka hann alvarlega áður en það verður of seint. En við þurfum að gæta að því hvaða aðferðum við beitum því að það er ekki hugurinn sem gildir.