151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna, en mig langar þó til að spyrja hann út í nokkur atriði í ræðu hans. Hv. þingmaður talar um það, sem ég fagna, að hann geri ekki ágreining um að frumvarpið sé í andstöðu við stjórnarskrána eða mannréttindasáttmála Evrópu, þvert á móti, og er gott að heyra það. Hins vegar kom fram í ræðu hv. þingmanns að það sé svo mikill hafsjór af vitleysu þarna úti, með leyfi forseta, að það gangi ekkert upp að koma einhverjum böndum á það.

Mig langar aðeins til að benda á það að helförin er ekki bara hafsjór af vitleysu. Helförin er voðaatburður, einn hryllilegasti atburður í sögu Evrópu, ekkert einn hryllilegasti, hann er hryllilegasti atburður í sögu Evrópu, þannig að það er engin vitleysa sem átti sér stað í helförinni. Þetta er raunverulegur atburður sem átti sér stað þar sem 6 milljónir manna voru drepin með köldu blóði vegna þess að þau tilheyrðu ákveðnum trúarhópum. Mig langar því til að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann telji samt sem áður ekki, að um helförina gildi aðrar nálganir en einhvers konar samsæriskenningar sem ganga ljósum logum á netinu, eins og hann vitnaði til, heldur raunverulega atburði þar sem fólk var drepið, safnað saman og myrt í gasklefum, hvort það sé ekki aðeins öðruvísi en einhverjar samsæriskenningar sem ganga um netið.