151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:20]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hingað kominn til að þakka hv. þingmanni svarið. Það er ánægjulegt að heyra að hann styðji að við séum með hatursorðræðuákvæði, þrátt fyrir að ég viti að hann er eindreginn stuðningsmaður tjáningarfrelsisins. Auðvitað mætti nálgast málið með þeim hætti að segja að hatursorðræðuákvæðið gæti gripið margt af því sem við erum að tala um hér. En það getur maður kannski líka sagt um mörg þau ákvæði sem eru t.d. í kynferðisbrotakafla. En við gefum ákveðnum brotum þann virðingarsess að leyfa þeim að heita það sem þau eru raunverulega. Ég get alveg verið sammála því að setja megi spurningarmerki við orðalagið í hatursorðræðuákvæðinu, en ég er einlæglega þeirrar skoðunar að það eigi að vera til. Og það eru til dómar þar sem á það hefur reynt sem sýnir að þess var þörf. Eins og ég hef sagt hérna áður er ég þeirrar skoðunar að það mál sem við erum með hér til meðferðar sé systurákvæði.