151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það virðist vera að því erfiðari mál sem ráðherrar eru komnir í, þeim mun ríkari verði þöggunartilburðirnir. Ég vil hins vegar benda á að með breytingunum á þingskapalögum árið 2011 var heimild til að tjá sig um það sem fram fer á nefndarfundum rýmkuð. Segir m.a. í greinargerð, með leyfi forseta:

„Ýmsar eðlilegar ástæður eru fyrir þessari þróun því að á nefndarfundum eru oft rædd mikilvæg þjóðmál þar sem fram koma sjónarmið sem ekki er hægt að setja undir þagnarskyldu eða gestir hafa komið á fund nefndar með mikilvægar upplýsingar eða sjónarmið sem ekki hefur verið hjá komist að skýra frá opinberlega.“

Ég beini því eindregið til hæstv. forseta að standa með þinginu og koma í veg fyrir þá þöggunartilburði og -tilraunir sem eiga sér stað núna af hálfu meiri hluta þingsins.