151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

málaferli menntamálaráðherra gegn einstaklingi.

[14:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Málaferli ríkisins á hendur konu sem hefur tvisvar sinnum fengið staðfestingu á því að menntamálaráðherra hafi brotið á rétti hennar kasta einfaldlega rýrð á önnur og betri verk ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Það er svo einfalt. Maður þarf ekki að vera aðili máls til að hafa skoðun á því. Ég er lifandi dæmi um það. Ég ætla að minna á að ekki eingöngu er hæstv. forsætisráðherra ráðherra jafnréttismála heldur ber henni, samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, að gæta þess að verkaskipting á milli ráðherra sé eins skýr og kostur er og að sameina stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarast. Ef ráðherra jafnréttismála, hæstv. forsætisráðherra, ætlar ekki að hafa skoðun á þessu máli vegna þess að hún er ekki aðili máls, hvers vegna var þá ráðherrann að taka jafnréttismálin til sín á sínum tíma, ef það var ekki til að standa vaktina í svona málum? Ég ætla að endurtaka spurningu mína: Er hæstv. forsætisráðherra stolt af málaferlum og framgöngu menntamálaráðherra í þessu máli (Forseti hringir.) fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar?