151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[14:53]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að kalla fram umræðu um aðildina að Atlantshafsbandalaginu, sem er bæði þarft og gott hér á þessum vettvangi. Ein af frumskyldum stjórnvalda hvers ríkis er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar, að tryggja þjóðaröryggi. Öryggi fyrir ógnum sem kunna að valda borgurum, stjórnkerfi og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða. Með hvaða hætti verður þessum frumskyldum stjórnvalda best sinnt? Þeirri spurningu er svarað í núgildandi þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi án mótatkvæða árið 2016. Í stefnunni kemur fram að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.

Við Íslendingar búum í landi þar sem válynd veður og náttúruhamfarir geta ógnað öryggi okkar. Þess vegna höfum við byggt upp öflugt almannavarnakerfi sem við treystum á. En hvað með aðrar ógnir? Hvað með hernaðarógn, hryðjuverkaógn eða netógnir? Væri ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að segja: Líkur á slíkum árásum eru litlar, við ætlum því að afsala okkur því alþjóðasamstarfi sem hefur verið trygging fyrir öryggi og vörnum lands og þjóðar í bráðum 72 ár? Mitt svar er: Nei. Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag. Í 72 ár hefur það uppfyllt markmið sitt um að tryggja frið milli aðildarríkjanna og komið í veg fyrir utanaðkomandi hernaðarárás. Hryllingur seinni heimsstyrjaldar var enn í fersku minni þeirra sem komu saman árið 1949 til að stofna bandalagið. En þeim var líka ofarlega í huga sú ógn sem stafaði af Sovétríkjunum.

Ég tel að við Íslendingar eigum að vera stolt af því að leiðtogar okkar, með Bjarna Benediktsson, þá utanríkisráðherra, í fararbroddi, höfðu þá framtíðarsýn og þann kjark að standa að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ákvarðanataka bandalagsins er í hendi 30 aðildarríkja þess á grundvelli sameiginlegra öryggishagsmuna. Þar á Ísland sitt sæti við borðið. Við njótum góðs af sameiginlegum vörnum bandalagsins, en skuldbindingar aðildarríkjanna samkvæmt 5. gr. Atlantshafssáttmálans kveða á um að árás á eitt ríki bandalagsins jafngildi árás á þau öll. Ekkert annað samstarf hefur þvílíka tryggingu. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu styrkir getu okkar til að takast á við nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum. Þannig nýtum við t.d. þekkingu bandalagsins til að efla og móta viðbrögð okkar við fjölþátta ógnum. Sem herlaust ríki leggjum við okkar af mörkum til sameiginlega varnarbandalagsins á borgaralegum forsendum.

Virðulegi forseti. Við ólögmæta innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 urðu ákveðin þáttaskil í öryggis- og varnarmálum okkar heimshluta og áskoranir og ógnir í öryggisumhverfi okkar hafa tekið á sig nýja og flóknari mynd. Aukin umsvif bandalagsríkja í og við Ísland endurspegla þá öryggishagsmuni sem í húfi eru vegna hernaðaruppbyggingar Rússa og minnkandi gagnsæis um hvað þeir aðhafast. Þróun þeirra á nýjum eldflaugakerfum er jafnframt áhyggjuefni sem ekki verður litið fram hjá. Vestræn ríki sem hlut eiga að máli hafa aukið umfjöllun um norðurslóðir í samráði um öryggis- og varnarmál, í svæðisbundnu samstarfi og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Það gefur augaleið að við Íslendingar eigum að vera fullgildir aðilar að því. Í Noregi eru tveir flokkar, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Rauðir, á móti aðild Noregs að Atlantshafsbandalaginu. Þessir flokkar tala hins vegar ekki fyrir því að Noregur eigi að veikja varnir sínar, þvert á móti þurfi að styrkja norska herinn enn frekar. Þá er vert að minna á að Finnland og Svíþjóð eru ekki hlutlaus ríki heldur hafa þau kosið eiga ekki aðild að varnarbandalagi. Bæði þessi ríki starfrækja öflugan her sem er grundvallarforsenda þess að þau geti staðið utan varnarbandalaga. Stundum er því fleygt að í stað aðildar að Atlantshafsbandalaginu geti komið aukið norrænt varnarsamstarf. Þróun þess samstarfs hefur verið jákvæð en er fjarri því að koma í stað aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu og engar vísbendingar eru um að pólitískur vilji sé fyrir slíku á Norðurlöndunum.

Virðulegi forseti. Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu njótum við Íslendingar verndar öflugasta varnarbandalags sögunnar. Aðildin tryggir varnir okkar og öryggi, en um leið gerir hún okkur kleift að vera áfram herlaus þjóð. Bæði kannanir og kosningaúrslit sýna að um þetta er allur þorri landsmanna sammála. Sú samstaða er fagnaðarefni.