151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[14:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu að ósk fulltrúa þess stjórnmálaflokks hér á landi sem er skilgetið afkvæmi harðsnúnustu andstæðinga veru Íslands í bandalagi lýðræðisþjóða, þótt sá flokkur hafi í gegnum tíðina nokkrum sinnum skipt um kennitölu. Hann hefur allt frá upphafi lýðveldisins barist gegn þessari aðild og hefur hér enn og aftur áréttað þá afstöðu sína. Ísland er stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu sem fullyrða má að sé mikilvægasta ákvörðun okkar í utanríkismálum frá upphafi. Þar með skipuðum við Íslandi í sveit með öðrum vestrænum lýðræðisþjóðum. Aðildin að NATO er algjört lykilatriði í utanríkisstefnu Íslands.

Herra forseti. Fyrstu áratugi lýðveldisins var órofa samstaða í sögulegu tilliti milli lýðræðisflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, um aðildina. Forveri Samfylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, brást ekki stuðningi sínum við aðild Íslendinga að NATO, en nú hafa vaknað upp réttmætar spurningar um afstöðu flokksins í þessu mikilvæga máli. Innan þess flokks hafa orðið nokkrar breytingar nú þegar nokkrir yfirlýstir andstæðingar bandalagsins hafa gengið til liðs við flokkinn, fólk sem styður með engum hætti þessa aðild. Það verður óneitanlega áhugavert að heyra afstöðu talsmanns Samfylkingarinnar til verunnar í Atlantshafsbandalaginu. Brýnt er að Samfylkingin geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi um afstöðuna til þessa máls.

Herra forseti. Í þessu sambandi er það einnig umhugsunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn láti bjóða sér að Vinstri grænir hafi úrslitaáhrif á að farið sé í nauðsynlegar framkvæmdir bandalagsins hér á landi, framkvæmdir af borgaralegum toga í Helguvík í fyrravor, og það á tímum ört vaxandi atvinnuleysis á Suðurnesjum.