151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir þessa sérstöku umræðu um NATO og aðild Íslands að bandalaginu. Þessari spurningu var svarað árið 1949, eins og við þekkjum flest, þó ekki þrautalaust. Ástandið í heiminum þá var þess eðlis að brugðist var við stöðunni í þeim tilgangi að tryggja öryggi þjóðarinnar ef á reyndi. Mér finnst einhvern veginn rétt í þessari umræðu að snúa þeirri spurningu við sem hv. málshefjandi setti hér fram um að ástæða væri til að taka sérstaka ákvörðun um að yfirgefa bandalagið. Það hefur auðvitað ansi margt breyst í heiminum og það er margt flóknara sem við er að etja en stríð í þeirri merkingu og vá sem vofði yfir um miðja síðustu öld milli vesturs og austurs. Við lítum á þessa aðild sem eina af meginstoðum í þjóðaröryggi og vettvang vestrænnar samvinnu. Hnykkt er á því í þjóðaröryggisstefnu okkar, sem hæstv. ráðherra fór vel yfir, þar sem við teljum okkur tryggja best öryggi okkar og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Það er mikilvægasti punkturinn í þessu að mínu viti. Ísland tekur þátt á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja og tekur slík samvinna mið af gagnkvæmum áhættuþáttum. Mér finnst svarið liggja þarna, hæstv. forseti; áhættuþættirnir eru víðtækari. Þeir eru hnattrænir, þeir eru samfélagslegir og auk þess hernaðarlegir og við hljótum að leggja áherslu á víðtæka alþjóðlega samvinnu. Þátttaka í NATO er mikilvægur partur af því. Ég hef kynnst því aðeins í gegnum þingmannanefnd NATO. Þar er til að mynda mikil áhersla lögð á að verjast netógnum og þar eru málefni norðurslóða, (Forseti hringir.) efnahagslegt ójafnvægi, áhrif falsfrétta og valdaójafnvægi og margt fleira. Þetta eru allt ógnir í dag sem við verðum nauðsynlega að hafa samvinnu um að vinna gegn.