151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Ein af kannski óvæntari afleiðingum loftslagsbreytinga er ásókn stórveldanna í áhrif á norðurslóðum þegar siglingarleiðir yfir norðurheimskautið opnast. Vegna þessa er það yfirlýst markmið Íslands og annarra norðurskautsríkja að viðhalda lágu spennustigi á norðurslóðum. Samt sem áður fer spenna vaxandi á þessu svæði. Og hver stendur fyrir þeim vexti? Það er ekki nóg að benda bara á Rússana heldur eru Bandaríkjamenn hér í lykilhlutverki, NATO, og nota Ísland sem vettvanginn til þeirrar uppbyggingar. Tökum t.d. stöðina á Keflavíkurflugvelli þar sem herstöð var lokað 2006. Það var ansi fáliðað á öryggissvæðinu árin þar á eftir en síðan fóru hermenn að mæta í síauknum mæli þangað til viðvera hermanna var viðvarandi árið 2015 og hefur haldist svo síðan. Skoðum bara síðasta ár. Þá var loftrýmisgæsla í þrjá mánuði, 130–250 hermenn hverju sinni. Það var kafbátaeftirlit rúmlega hálft árið með 60 hermönnum. Stuðningur við kafbátaeftirlitið var á staðnum á Keflavíkurvelli hvern einasta dag árið 2020.

Herra forseti. Það má segja ýmislegt um NATO en m.a. má segja að það sé gríðarlega ógagnsætt og ólýðræðislegt apparat. Þau einkenni smita greinilega út frá sér því að hvergi átti sér stað upplýst lýðræðisleg umræða um þetta gríðarlega breytta hlutverk öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli.