151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Áfram um þær blikur sem eru á lofti í öryggisumhverfi á norðurslóðum þar sem Ísland er vettvangur aukinnar spennu. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið farið af stað með þær mestu framkvæmdir á varnarmannvirkjum sem verið hafa á Íslandi frá lokum kalda stríðsins. Rúmir 10 milljarðar fara ekki bara í að halda við húsakosti á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, heldur líka til að taka við nýjum verkefnum, eins og kafbátaleitinni, eins og gistiaðstöðu til að sé hægt að halda áfram úti þjálfunarbúðum fyrir flugheri, eins og því að byggja upp alla innviði sem þarf til að geta gert herstöðina í Keflavík virka hvenær sem er sem stökkpall í næsta árásarstríð sem NATO dettur í hug að taka þátt í. Þetta er að gerast í dag. En það vantar ekki áhugann á meiru, eins og viðtal við yfirmann sjóhers Bandaríkjanna sýndi síðastliðið haust þar sem hann sá fyrir sér lítið, varanlegt fótspor frá Bandaríkjunum í formi hafnaraðstöðu.

Nú er til samráðs frumvarp þar sem hæstv. utanríkisráðherra viðrar hugmyndir sínar um að víkka út öryggissvæðið við Gunnólfsvíkurfjall þannig að það nái yfir norðurhluta Finnafjarðar. Þarna er fólk búið að sjá að væntanlega eru ekki viðskiptaforsendur fyrir stórskipahöfn í Finnafirði og þá á að fara að seilast í vasann hjá NATO til að fjármagna það.

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands, eins og aðrar ríkisstjórnir á norðurslóðum, segist vilja viðhalda lágu spennustigi á svæðinu. Hér passa einfaldlega ekki saman orð og gjörðir.