151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[15:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrsluna og eins þakka ég þessa umræðu. Miðflokkurinn leggur áherslu á vöxt og viðgang atvinnulífsins og vill beita sér fyrir aðgerðum sem stuðla að framþróun og nýsköpun. Miðflokkurinn sýndi í verki stuðning við málefnið sem hér er rætt með því að gervallur þingflokkurinn stóð að þingsályktun um gerð skýrslunnar. Eins leggjum við sérstaka áherslu á að iðn- og tæknimenntun verði efld. Því miður hafa loforð um þessi atriði ekki verið efnd á nýliðnum árum og fá merki á lofti um að vænta megi nauðsynlegra umbóta í þeim efnum.

Fram kemur í skýrslunni að klasastefnan hefur beina skírskotun til nýsköpunarstefnu stjórnvalda til 2030 undir kjörorðinu Nýsköpunarlandið Ísland, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2022 og margvíslegar tengingar við skýrslu forsætisráðuneytisins Ísland og fjórða iðnbyltingin, auk fleiri áherslumála sem fram hafa komið á undanförnum árum á vegum stjórnvalda.

Höfum í huga að samkeppnisskilyrði ráða úrslitum um verðmætasköpun og hagsæld. Lykilþættirnir eru aðstæður fyrirtækja til að keppa á markaði, hvort sem er við innlenda eða erlenda keppinauta, framleiðni og nýsköpun. Nýsköpunin leggur grunn að aukinni framleiðni og aukin framleiðni styrkir samkeppnisstöðuna. Stjórnvöld hafa svo aftur mikilvægu hlutverki að gegna við að móta starfsumhverfi atvinnufyrirtækja þannig að þeim séu búin sem best skilyrði í samkeppni að utan.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Klasasamstarfi má lýsa sem stefnumiðaðri aðferðafræði til að byggja brýr og styrkja tengingar og samvirkni innan vistkerfa nýsköpunar og atvinnulífs og til að vinna með stefnumiðuðum hætti að ákveðnum markmiðum um nýsköpun og vöxt í því skyni að hraða árangri.“

— Já, herra forseti, svo mörg voru þau orð. Ég ætla að leyfa mér að segja að kannski hefði mátt nálgast skilgreiningu á viðfangsefninu með eilítið einfaldari og síður hátimbruðum hætti.

Samkeppnishæfni endurspeglar getu þjóðar til verðmætasköpunar og leikur framleiðni þar lykilhlutverk. Þetta sést t.d. vel í sjávarútvegi þar sem færri hendur skila meiri verðmætum en áður í þeim mæli að vakið hefur alþjóðlega athygli. Aukin framleiðni eflir langtímahagsæld þjóða. Mikilvægt er að skoða hvort fyrirtæki innan hlutaðeigandi atvinnugreina hafi stuðning af virkum klösum.

Samstarf fyrirtækja er lykilþáttur í árangri þeirra og sýnt hefur verið fram á mikilvægi klasa í efnahagslegu tilliti. Klasar gefa færi á að auka framleiðni og nýsköpun sem leiðir til aukinnar samkeppnishæfni og meiri hagsældar. Hagsældin er svo aftur forsenda þess að halda uppi lykilþáttum í samfélaginu á borð við heilbrigðis- og skólakerfi, menningarstarfsemi og velferðarkerfi.

Málið snýst ekki um að ríkið fari af stað og búi eitthvað til heldur verði farsæll farþegi í aftursæti sem styðji við ökumann og lesi kortið rétt svo að menn rati ekki í villur.

Við sjáum að í íslensku atvinnulífi hafa myndast klasar í sjávarútvegi, jarðhita, lækningatengdri þjónustu og ferðaþjónustu svo að dæmi séu nefnd. Þetta eru allt dæmi um klasasamstarf sem virðist sjálfsprottið. Stjórnvöld þurfa helst að gæta sín að vinna ekki gegn atvinnulífinu með óskynsamlegri reglusetningu og ofsköttun.

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að draga fram helstu áherslur Miðflokksins í þessum mikilvæga málaflokki:

1. Að regluverkið verði gert einfaldara og skilvirkara til hagsbóta fyrir atvinnulífið.

2. Að hugað sé sérstaklega að því að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki og gera þeim auðveldara að keppa á öllum sviðum, minna regluverk er þar mikilvægt.

3. Við viljum ekki ríkisstyrkt atvinnulíf heldur regluverk sem gerir atvinnulífinu sem auðveldast að þroskast af sjálfu sér.