151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:20]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil, líkt og aðrir ræðumenn, byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu. Hún fjallar um mikilvægt málefni. Hún er einn angi þeirrar umræðu sem er okkur öllum svo mikilvæg og varðar það hvernig við getum innleitt framfarir á Íslandi, hvernig við getum gert atvinnulíf okkar fjölbreyttara, hvernig við getum aukið útflutningstekjur, hvernig við getum aukið það virði sem verður til í íslensku atvinnulífi og hvernig við getum skapað sameiginlegan auð fyrir samfélagið, góð störf, vel launuð störf o.s.frv. Þetta þekkjum við og við erum að reyna að ná þeim árangri.

Við höfum gert margt vel og við höfum náð býsna góðum árangri á köflum. Það sem hefur helst verið akkillesarhæll okkar að mínu mati í öllum málum af þessu tagi er að okkur skortir svolítið úthald og við gleymum okkur þegar vel gengur í undirstöðuatvinnugreinum okkar eða þeim atvinnugreinum sem eru fyrirferðarmestar í samfélaginu. Það er mikilvægt að við hverfum frá þeim hugsunarhætti og klasastefna getur að sjálfsögðu verið þáttur í því.

Þessi skýrsla byggist á þingsályktunartillögu sem flutt var hér í hittiðfyrra. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir örlitlum vonbrigðum með skýrsluna. Í henni eru vissulega talin upp ýmiss konar atriði. Fjallað er um ýmislegt sem vel hefur tekist og skilgreiningar á ýmsum hlutum, eins og hvað sé vistkerfi og hvað klasi o.s.frv. Taldir eru upp klasar og talin upp dæmi um hvað væri gott að menn væru að sýsla við. En það sem mér finnst satt að segja skorta talsvert á í þessari stefnu, sem þetta er — klasastefna þessi er unnin á grundvelli þingsályktunar o.s.frv., eins og segir í upphafi skýrslunnar, og reyndar lét hæstv. ráðherra þess getið að þetta væri 1. útgáfa. Mér finnst þetta satt að segja vera drög að stefnu. Verið er að tína til ýmislegt skynsamlegt sem gaman væri að gera. En mér finnst fara allt of lítið fyrir því hvað felist nákvæmlega í þessari stefnu. Hvernig ætla stjórnvöld að styðja við framgang klasa? Ætla þau að gera það með fjármagni? Ætla þau að gera það með miklu fjármagni? Ætla þau að mennta fólk á þessu sviði? Hvað er það nákvæmlega sem stefnan felur í sér?

Ég næ ekki alveg utan um það satt að segja. Það eru mér svolítil vonbrigði vegna þess að ég held að þarna séu tækifæri og mér finnst þetta vera fullmikil endurtekning á sjálfri skýrslubeiðninni, vissulega miklu ítarlegri og vissulega búið að taka hlutina saman, en mér finnst skorta svolítið á að þarna sé markvisst talað um hluti. Ef maður t.d. lítur á hlutverk stjórnvalda þá segir, með leyfi forseta, á bls. 16 í skýrslunni:

„Verkfæri hins opinbera við að efla vistkerfi nýsköpunar geta falist í því að leggja fjármagn …“

„Framlag opinberra sjóða getur aukið tiltrú á verkefnum …“

„Opinberir aðilar geta líka hvatt til …“

Síðan segir áfram í sama kafla, með leyfi forseta:

„Við mótun og framkvæmd klasastefnu er mikilvægt að hafa skýra sýn á hlutverk einkaaðila og hlutverk stjórnvalda og opinberra aðila í samstarfi sem drifið er áfram af þörfum atvinnulífsins. Mikilvægt er að markmið með opinberum stuðningi séu skýr.“

Það er ekkert útskýrt hvernig þau eru skýr. Tilgangurinn með þessu er góður, klasar hafa reynst vel víða, en ég verð að segja að þetta veldur mér nokkrum vonbrigðum. En ég vil líka vera jákvæður og ég ætla að ljúka þessu á jákvæðum nótum og segja: Þetta er gott skref. Þetta er góð byrjun, skulum við segja, en þetta er svo langt frá því að vera eitthvað sem a.m.k. í mínum huga gæti flokkast undir það að vera fullbúin stefna í þessu máli. Ég held að þeir sem lesa þetta og vinna í klösum, eða hafa hug á að setja upp klasa, (Forseti hringir.) fái voðalega lítið út úr því að lesa þetta plagg. En batnandi mönnum er best að lifa og ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra mun taka þetta til skoðunar og vinda bráðan bug að því að gera þessa stefnu skýrari.