151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála .

400. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála, frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson og Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Brynhildi Pétursdóttur og Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Hildi Ýri Viðarsdóttur og Karen Björnsdóttur frá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, Neytendasamtökunum og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi ýmissa úrskurðarnefnda á sviði neytendamála. Markmið frumvarpsins er að deilur neytenda við fjármálafyrirtæki, vátryggingafyrirtæki, vátryggingamiðlara og fasteignasala verði leystar hjá viðurkenndum úrskurðaraðilum í stað lögbundinna úrskurðaraðila.

Breytingartillögur meiri hlutans eru þessar:

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á ákvæði 14. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, og lagt til að kveðið verði á um frávísunarskyldu viðurkenndra úrskurðaraðila og kærunefndar vöru- og þjónustukaupa við tilteknar aðstæður, m.a. þegar mál heyrir undir, er til meðferðar eða hefur hlotið meðferð hjá dómstólum. Í umsögnum sem bárust nefndinni var bent á að nær öll mál sem vísað væri til kærunefndarinnar heyrðu undir lögsögu dómstóla, orðalag ákvæðisins væri því víðtækara en leiddi af markmiði þess. Nefndinni barst minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem fallist var á framangreindar ábendingar. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu á orðalagi og framsetningu ákvæðisins þannig ekki verði lengur kveðið á um skyldu til að vísa frá málum af því einu að þau heyri undir lögsögu dómstóla.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. A-liður 1. gr. orðist svo:

Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Viðurkenndir úrskurðaraðilar og kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skulu vísa frá málum sem:

a. heyra ekki undir lögsögu þeirra,

b. heyra undir, eru til meðferðar eða hafa hlotið meðferð hjá öðrum viðurkenndum eða lögbundnum úrskurðaraðila sem ráðherra hefur skráð og tilkynnt eða erlendum úrskurðaraðila sem er á skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahagssvæðinu, eða

c. eru til meðferðar eða hafa hlotið meðferð hjá dómstólum.

2. 3. gr. orðist svo:

Í stað tilvísunarinnar „1. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 16. gr.“ í c-lið 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: 1. eða 2. mgr. 14. gr.

3. Við 4. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi:

Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrskurðaraðilar.

4. Við 14. gr. bætist: ásamt fyrirsögn.

Undir meirihlutaálitið skrifa hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Þórarinn Ingi Pétursson.