151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég á í vandræðum með þessa áréttingu til formanna og nefndarmanna í fastanefndum Alþingis sem forseti sendi á nefndirnar þar sem segir að það sé ekki hlutverk nefndarmanna í fastanefndum að endursegja og hvað þá túlka það sem gestir eða aðrir nefndarmenn segja á lokuðum nefndarfundum. En hins vegar verða þingmenn að geta gert grein fyrir afstöðu sinni og viðhorfum. Það kemur líka fram í bréfinu. Þegar ég fæ upplýsingar á nefndarfundum mótar það viðhorf mín í því máli og ég verð að rökstyðja þau viðhorf á einhvern hátt. Óhjákvæmilega þýðir það að það er ákveðin túlkun á því sem gerðist, ekki endilega á orðum einstakra gesta heldur kannski nokkurra gesta, sem maður þarf að púsla saman og að sjálfsögðu túlka. Það er mjög þröngt orðað í þessari áréttingu hvað það þýðir í raun og veru með tilliti til þeirra mála sem verið er að ræða hérna. Ég óska þess að forseti skýri þetta. Þetta er nefnilega óskiljanleg árétting miðað við þær aðstæður sem við erum í hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)