151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[13:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Málefni neytenda hafa liðið fyrir skort á framtíðarsýn og skort á skýrri stefnumörkun. Hringlandaháttur hefur verið einkennandi fyrir aðgerðir stjórnvalda undanfarin ár líkt og með þessu frumvarpi og með ómótuðum og óljósum hugmyndum um framtíð Neytendastofu. Hér er verið að færa verkefni frá Neytendastofu til stofnana sem í sumum tilfellum hafa enga samlegð. Hvaða markmiðum á t.d. að ná með því að færa öryggi leikfanga og snuða frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar líkt og lagt er til?

Við í Samfylkingunni leggjum til að frumvarpinu verði vísað frá og sett verði strax í gang vinna við vandaða stefnumótun í málefnum neytenda líkt og kallað hefur verið eftir í áraraðir. Neytendamál varða almannahag og fúsk líkt og þetta frumvarp ber með sér er ekki hægt að sætta sig við.