151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Staðan í heiminum er því miður sú að yfir 60 milljónir manna eru á flótta, það hafa aldrei verið jafn margir á flótta í heiminum. Það er auðvitað atriðið sem sýnir okkur alvarleikann í stöðunni og hversu margir eru í erfiðri stöðu. Ég get ekki sagt til um það hvernig mál munu þróast og ég er því miður ekki viss um, hvorki með óbreyttum lögum um málefni útlendinga né með breytingum á lögum um málefni útlendinga á Íslandi, að við breytum þeirri staðreynd að það er allt of margt fólk í neyð. Hins vegar er í þessu frumvarpi verið að setja það í lög að börn sem beðið hafa úrskurðar í efnismeðferð fái hér hæli að tilteknum tíma liðnum. Við höfum séð þannig mál þar sem hefur verið sótt mjög fast, réttilega, að börn og fjölskyldur í þeirri stöðu fái hæli á Íslandi. Það er t.d. atriði sem ég tel að sé til bóta í þessu frumvarpi, auk þess sem hér er verið að setja það inn að fólk geti fengið hæli af mannúðarástæðum þó svo að það sé með stöðu í öðru landi. Þetta eru atriði sem ég tel að skipti gríðarlega miklu máli inn í þá umræðu. En ég held því miður að við gerum heiminn ekki góðan, hvorki með samþykkt þessara laga né með því að samþykkja þau ekki.