151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

Suðurstrandarvegur.

[13:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil bara rifja það upp hér af þessu tilefni að í óveðrinu 2019 kom eitt og annað upp sem var ekki nægilega gott í kerfinu okkar, þar á meðal tól og tæki til handa Vegagerðinni í samstarfi við lögreglu og aðra, m.a. til að geta lokað vegum og slíkt. Það erum við búin að fjármagna og það er búið að fara í allt það þannig að slíkt viðbragð er til, brugðist var við því hratt og vel. Ég er sammála því að björgunarsveitirnar í landinu eru frábærar og fólk tilbúið að leggja mikið á sig. En ég skal líka viðurkenna að mér fannst það tilætlunarsemi af fólki að vaða út í óvissuna í kringum þetta gos og búast við því að fólk sem var búið að vera þrjár vikur á vakt í Grindavík ósofið væri líka að bjarga fólki sem hefði kannski mátt fara aðeins varlegar. (Forseti hringir.) En sem betur fer eru björgunarsveitirnar tilbúnar í alla góða hluti í samstarfi við lögregluna og það verður þannig áfram.