151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[16:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt áður en hæstv. ráðherra hóf framsögu sína barst þingmönnum bréf frá Alþýðusambandi Íslands. Hafi ráðherra ekki haft tök á því að kíkja á tölvupósthólfið sitt þá birtust sambærilegar fréttir í Morgunblaðinu í morgun, sem ég reikna með að ráðherra kíki kannski oftar á en tölvupóstinn hér á þingi, þar sem Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð ráðuneytisins í þessu máli. Það gengur svo langt að segja að fjármálaráðherra sé að brjóta blað í sögunni með því að fara fram með tillögur um breytingar á lífeyriskerfinu án samráðs við fulltrúa vinnandi fólks, en láti í veðri vaka að svo hafi verið. Það segir Alþýðusambandið að sé vegna þess að í frumvarpinu sé látið eins og það sé í heild sinni unnið í samráði, en reyndin sé hins vegar sú að hið minnsta þrjú veigamikil atriði í frumvarpinu séu þvert á óskir verkalýðshreyfingarinnar.

Mig langar að fá ráðherra til að gera þingheimi grein fyrir þessu af því að þetta snýst ekki um ólíka sýn okkar á útfærslu í þessu frumvarpi, eins og mátti (Forseti hringir.) heyra varðandi sum atriði hjá ráðherranum, heldur bara grundvallarverklag þegar kemur að því að ræða um réttindi vinnandi fólks.