151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[18:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg hægt að segja að sjóðsöfnunarkerfi var nær örugglega rétt ákvörðun á sínum tíma. Hvort það er rétt ákvörðun að viðhalda því núna frekar en að taka einhvern hluta í gegnumstreymi er spurning sem snýr kannski ekki að lífeyri, það er hægt að tryggja að fólk fái jafn góðan lífeyri í hvoru kerfinu fyrir sig. Spurningin er bara hversu stór hluti af fjárfestingarmætti íslensks hagkerfis sé í rauninni bundinn í lífeyrissjóðakerfinu hverju sinni. Nú búum við svo vel að það eru margir lífeyrissjóðir þannig að það er kannski ekki mikil hætta á því að þeir fari að slengja valdi sínu til eða frá með skaðlegum hætti. En það er samt alveg rétt sem hv. þingmaður talar um, þetta setur þrýsting á krónuna og setur þrýsting á fjárfestingarkosti. Þetta gerir það að verkum að t.d. erlendir fjárfestar hafa kannski minni áhuga á að koma inn í íslenskt hagkerfi með eigin peninga. Og að auki, þegar þetta er svo keyrt saman við þá stefnu núverandi ríkisstjórnar og síðustu ríkisstjórna að keyra alltaf niður ríkisskuldir niður í ekki neitt — höfum í huga að ríkisskuldir eru einkasparnaður — þá verður þrýstingurinn í rauninni enn þá meiri á þá þætti hagkerfisins sem geta skilað einhverjum arði.

Þetta kerfi er flókið. Ég held að það sé rauði þráðurinn í allri þessari umræðu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að eiga þetta samtal við mig, vegna þess að þetta kerfi er ógeðslega flókið en yfirleitt ekki af þeim ástæðum sem maður myndi ætla í upphafi, heldur aðallega út af hinum flóknu samverkunaráhrifum sem eiga sér stað þegar kerfi sem er þetta stórt, þetta umfangsmikið, er í samspili við svo lítið hagkerfi.