151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

kostnaður við liðskiptaaðgerðir.

[13:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í nóvember 2019 spurði hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hæstv. ráðherra út í þá miklu biðlista sem þá þegar höfðu safnast upp eftir aðgerðum, ekki hvað síst liðskiptaaðgerðum. Þá var alllengi búið að senda fólk til útlanda í slíkar aðgerðir þrátt fyrir að það væri oft jafnvel þrisvar sinnum dýrara en að framkvæma aðgerðirnar hér heima. Tilefni fyrirspurnar hv. þingmanns í þetta skiptið var viðtal sem hafði birst við hæstv. fjármálaráðherra í nóvember 2019 þar sem hann lýsti áhyggjum af þessu ástandi en að þær skýringar sem gefnar hefðu verið væru þær að óþarfi væri að semja við þriðja aðila vegna þess að Landspítalinn gæti framkvæmd þessar aðgerðir. Vandinn var bara sá að hann gat það ekki vegna fráflæðisvanda. Eins og hæstv. ráðherra sagði þá er það ein skýring en ekki skýring sem getur haldið til langs tíma, ekki skýring sem heldur ár eftir ár, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er skýringin nú? Hvers vegna getur Landspítalinn ekki unnið upp þessa biðlista? Er ríkisstjórnin ekki reiðubúin til að semja um að kaupa þessa þjónustu sem er til staðar og er í boði hér á Íslandi? Í rauninni virðist einfaldlega vera afturför, áframhaldandi afturför, í samskiptum ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins, við þá sem eru sjálfstætt starfandi og þjónusta ríkið á sviði heilbrigðismála. Eins og hæstv. ráðherra nefndi: Er ekki skynsamlegra að hætta að borga fyrir þessar ferðir til útlanda og nota peninginn þess í stað hér heima? Hvers vegna hefur ekkert gerst í þessum málum, hæstv. ráðherra?