151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

vöxtur skuldasöfnunar.

[13:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er megináherslan á að stöðva hlutfallslegan vöxt skuldasöfnunar. Ef spár ganga eftir verða um 10.000 manns án atvinnu hér á landi eftir fimm ár. Í stað þess að útfæra frekari aðgerðir til að fleyta fólki, fyrirtækjum og hagkerfinu í heild í gegnum efnahagsvandann leggur ríkisstjórnin ofuráherslu, að því er virðist, á að miða við ákveðið skuldahlutfall árið 2025 með tilheyrandi niðurskurði á ríkisútgjöldum. Auk þessarar fjármálareglu, sem ríkisstjórnin hefur sett sér sjálf, eiga fjármálareglur laga um opinber fjármál að taka gildi árið 2026. Fjármálaráð fer með varnaðarorð um þetta í álitsgerð sinni um fjármálaáætlunina og bendir á að bæði afkomureglan og skuldalækkunarreglan geti orðið stór biti að kyngja eftir viðlíka efnahagshremmingar og nú er tekist á við. Skuldalækkunin verði mest íþyngjandi á fyrsta ári skuldalækkunarinnar um leið og enn gæti eimt eftir af áhrifum faraldursins á efnahagslífið. Þrátt fyrir stöðvun vaxtar skuldahlutfalls 2025 verði afkoman engu að síður neikvæð um 1,5% af vergri landsframleiðslu það ár og hið næsta. Þannig sé fyrirséð að afkomureglan verði íþyngjandi við gildistöku hennar á nýjan leik.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann taki ekki þessi varnaðarorð fjármálaráðs alvarlega og íhugi í það minnsta hvort farsælla sé að miða við umsvif í hagkerfinu þegar ákvörðun um skuldaviðmið er tekin frekar en ákveðið ártal.