151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

vöxtur skuldasöfnunar.

[13:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í þeirri ríkisstjórn sem Samfylkingin sat í frá árinu 2009 var farin sú leið að hækka skatta í kreppunni og stöðva fjárfestingu. Það var t.d. gerður tíu ára samningur við höfuðborgina um að fara í engar fjárfestingar í heilan áratug og leggja milljarð í almenningssamgöngur. Við súpum seyðið af því. Við sjáum að við erum í innviðaskuld. Þess vegna er þessi ríkisstjórn í innviðaátaki. Við erum að hækka fjárfestingarstig ríkisins og við látum það vera að íþyngja fyrirtækjum og heimilum með auknum sköttum heldur höfum við létt sköttum af fyrirtækjum og heimilum. Þegar talað er um umfang nauðsynlegrar aðlögunar í fjármálaáætlun erum við að draga fram, samhliða sviðsmyndum sem eru búnar til, hvað við þurfum að ná miklum árangri á komandi árum miðað við grunnsviðsmyndina til að ná markmiðum okkar um skuldastöðu árið 2025 og 2026. Við erum með öðrum orðum að sýna fram á að við eigum allt undir því sem samfélag að örva hagvöxt núna, fá meiri landsframleiðslu, (Forseti hringir.) til þess að þurfa einmitt ekki að draga saman útgjöld eða fara í tekjuöflunarráðstafanir á síðari hluta áætlunartímabilsins.