151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

barnalög.

11. mál
[13:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er ágætismál sem er að fara hér í gegn. Það er miður að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að allar fjölskyldur geti nýtt sér þetta úrræði á jafnræðisgrundvelli. Nú stendur til að skoða það og breytingartillaga þess efnis var samþykkt, sem er jákvætt. Það hefði verið hægt að gera ráð fyrir öllum frá upphafi og hefði verið betra að þetta úrræði nýttist fólki óháð efnahagslegri stöðu og óháð fötlun alveg frá upphafi. Það er nægur tími til þess að ganga í það verk þar sem lögin taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót. Ég hvet meiri hlutann til dáða í að ganga í það verk sem fyrst til þess að þegar þessi lög taka gildi þá hafi allir jafnan aðgang að þessu úrræði, óháð efnahagslegri stöðu og óháð fötlun. Okkur ber sem löggjafa og framkvæmdarvaldi skylda til að tryggja það.