151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[15:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil svara hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þannig, og ég skil mjög vel að hann skuli vera ósáttur við þá stöðu sem hann og undirstofnanir hans eru settar í í þessu tilviki: Mér liggur við að biðja hæstv. ráðherra og Samgöngustofu afsökunar fyrir hönd Alþingis á stöðunni sem komin er upp vegna skýrslu sem varðar viðkomandi. En ég er ekki tilbúinn til að kveða upp úr um það hér og nú að Alþingi ráði ekki við það verklag sem mótað var í samvinnu við nýjan ríkisendurskoðanda. Ég er ekki tilbúinn til þess. Hér er ekki spurningin um að halda einhverju leyndu, að læsa eitthvað inni og tala um leyndarhyggju, það á ekki við. Þetta er eingöngu spurning um það hvernig ber að opinbera birtingu skýrslu Ríkisendurskoðunar. Á það að gerast með gamla laginu, að hún sé birt á vef Ríkisendurskoðunar daginn sem hún kemur úr prentun og áður en þingið fær hana senda? Eða ræður Alþingi við það verklag að taka við skýrslunni, færa hana inn í þá nefnd sem hefur forræði á málinu, fá kynningu á skýrslunni og gera hana þá opinbera samtímis gagnvart öllum í landinu, líka fjölmiðlum, því að þeir eiga ekki að fá skýrsluna fyrr en allir aðrir hafa fengið hana? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)