151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[16:55]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég kýs að taka þátt í 2. umr. um mál um minnihlutavernd í veiðifélögum. Mig langar bara að vera með stutta hugleiðingu í þessum efnum þar sem ég tek undir orð þeirra hv. þingmanna sem talað hafa á undan, framsögumenn meirihluta- og minnihlutaálita, um mikilvægi þessarar löggjafar og gildi hennar.

Árið 1923 er fyrst sett löggjöf á þessu sviði. Stofn þessarar löggjafar sem við ræðum í dag er frá þeim tíma. Og hvers vegna var það gert? Ég held að það sé nauðsynlegt að við ræðum þessa breytingu hér í dag í samhengi við megintilgang laganna frá þeim tíma. Ég hef stundum sagt í ræðu og riti að mér finnst löggjöfin um nýtingu á veiðihlunnindum vera einhver merkasta umhverfislöggjöf og einhver fyrsta umhverfislöggjöf sem við setjum hér á landi og sem slík mikilvæg um vernd og viðgang þeirra fiskstofna sem fjallað er um í þessum lögum, lax og silung. Aðstæður voru með þeim hætti upp úr árunum 1920 að farið var að kaupa jarðir og skilja veiðirétt undan jörðum, safna jörðum, selja þær svo aftur og halda veiðirétti og vatnasvæðum laxveiðiáa fyrst og fremst eftir í sjálfstæðu eignarhaldi. Það var mikið gæfuspor fyrir löggjafann á þeim tíma, 1923, að bregðast við þeirri þróun þannig að þessi atvinnugrein eða þessi hlunnindanýting fengi að vaxa til stuðnings og styrktar búsetu í sveitum. Það er hinn andi löggjafarinnar, fyrir utan að ná utan um vernd og nýtingu lax- og silungsstofnsins, þ.e. að nýtingin verði til styrktar byggð í sveitum. Ég held að þetta sé einhver merkasta löggjöf á því sviði þar sem við förum að huga að því hvernig við getum tryggt vöxt og viðgang samfélaga í sveitum á Íslandi.

Þegar við horfum síðan á eignarréttinn og samhengið við hann hefur frá þeim tíma verið svolítið tog um hann í þessu sambandi, þar sem gengið er inn með þeim hætti að skikka menn í veiðifélög, standa að því að það sé félagsskapur um nýtinguna og rekstur laxveiðiáa og nýtingu þessara hlunninda, sem ekki fellur öllum í geð og ekki enn þann dag í dag. Og enn eru deilur uppi um þetta. Nú eru kannski að láta kræla á sér sjónarmið þeirra sem keypt hafa jarðir og vilja einfaldlega friða og fyrst og fremst leyfa gestum sínum og njóta þess sjálfir að horfa á laxinn stökkva í ánni og upp fossa sem eru í þeirra landi. Það verður umræða sem mun vafalaust verða háværari á næstu árum. En hinu er ekki að leyna að megintilgangur löggjafarinnar um að styðja við landbúnaðarsamfélögin eða styðja við sveitasamfélögin hefur gengið eftir. Ég get nefnt t.d. úttektir sem Landssamband veiðifélaga hefur gert um gildi þessara hlunninda fyrir tekjur bænda í einstökum héruðum landsins þar sem hefur komið fram að þetta getur numið verulegum hluta atvinnutekna eða tekna ábúanda á lögbýlum og eigenda lögbýla og allar götur síðan og eftir því sem þessi nýting hefur aukist af verðmætum. Ég ætla ekkert að tala um þann mikla áhuga og þá upplifun sem veiðimenn njóta við að veiða í ám og vötnum heldur gildi þessarar nýtingar til að festa í sessi búsetu á jörðum. Sannarlega í þeim héruðum þar sem ég þekki hvað best til hefur þetta verið kjölfesta í byggð, nýtingin og þessi löggjöf sem lætur menn standa saman um nýtingu þessara hlunninda. Menn hafa haft af þessu heilmiklar tekjur sem hafa nýst til uppbyggingar á jörðum. Þess vegna var það ekki fyrir löngu síðan að Hæstiréttur tiltók einmitt þennan megintilgang laganna í dómi sem hann felldi í gamalli deilu um hvort veiðiréttur hefði verið framseldur með tiltekinni lóð og þar með tekinn undan lögbýlinu. Þetta er nýlega staðfest í dómi Hæstaréttar.

Það má segja að grunnurinn að þessu frumvarpi sem við ræðum hér í dag sé lítið frumvarp sem ég og hv. þm. Óli Björn Kárason lögðum fram sem þingmenn fyrir nokkrum árum um minnihlutavernd í veiðifélögum. Það er kannski líka til að bregðast við tíðarandanum eða breyttum aðstæðum í sveitum þar sem við höfum séð að þeir sem bjuggu á lögbýlum voru að verða undir í veiðifélögum þar sem eignarhald jarða hafði flust út úr héraði. Það er megindrifkrafturinn á bak við frumvarpið sem við ræðum í dag, að tryggja ákveðna minnihlutavernd þannig að ekki komi upp sú staða að meiri hluti geti ráðstafað sér til hagsbóta nýtingu hlunnindanna án þess að menn geti rönd við reist. Hér eru alla vega settar í löggjöfina ákveðnar leikreglur í þeim efnum og ég held að þær séu gríðarlega mikilvægar og ég heyri ekki að við deilum um það, við sem höfum tekið þátt og þeir framsögumenn sem hér hafa talað, um þennan megintilgang.

Ég held að þegar við söfnum saman í sarpinn þeim þingmálum sem við höfum afgreitt á þessu kjörtímabili til að bregðast við þeim breytingum sem eru að verða úti í sveitum með samþjöppun á eignarhaldi bújarða þá sjáist að við höfum brugðist alla vega við með þeim hætti að við erum að reyna að ná aftur utan um samfélög sveitanna, landbúnaðarsamfélögin, og standa gegn óæskilegri þróun að mínu viti sem mögulega verður í kjölfar þess að eignarhald jarða verður mjög einhæft og veikir byggðirnar í sveitunum því að það er ábúðin sem skiptir í sjálfu sér langmestu máli. Það má kannski segja, með ákveðnum hætti, að ábúð sé miklu mikilvægari en eignarhaldið og eignarhaldið sé kannski ekki af sömu þyngd en þetta eru allt saman hlutir sem þurfa að spila saman. Það er rótin að þessu máli sem við ræðum í dag og þetta eru viðbrögð löggjafans til að vernda þennan upphaflega annan megintilgang laganna frá 1923.

Hvað varðar það frumvarp sem við ræðum hér í dag, rétt eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson rakti í framsögu með minnihlutaáliti sínu, hefur þingið glímt við þetta verkefni í nokkurn tíma. Það hafa verið gerðar nokkrar útgáfur af þessari minnihlutavernd og má að sönnu segja að nefndin hafi með önnur mál þurft að fjalla meira um, enda flókið úrlausnarefni og viðkvæmt að stíga inn í rétt manna með þessum hætti. Sú útgáfa sem nú liggur fyrir okkur í þessum þingsal er ágætlega gagnsæ og skýr og einföld að því leyti að settar eru upp skýrar leikreglur um til hvaða þátta þarf að horfa svo að minni hlutinn geti reist hönd fyrir höfuð sér. Síðan eru skrifaðar út reglur um hvernig eigi að vinna úr því.

Það má síðan ræða um ýmislegt annað í löggjöfinni um lax- og silungsveiði sem vafalaust verður gert áfram þó að við gerum þessa breytingu í dag og ljúkum þessu máli sérstaklega. Þar sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi matsnefndina og hlutverk matsnefndar þá get ég með ákveðnum hætti tekið undir áhyggjur manna af því að kannski þurfi til lengri tíma að skoða hlutverk matsnefndarinnar betur. Er hún orðin of hlaðin stjórnsýsluhlutverkum? Er búið að færa henni of víðtækt hlutverk? Ég held að það skref sem við erum að stíga í dag með þessu frumvarpi sé varfærið í þeim efnum. En vel má vera og ágætisrök í því sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefnir hér fyrir hæfi nefndarmanna í matsnefnd þótt ég telji kannski ekki vera þá vá fyrir dyrum sem hann rakti í sinni ræðu, í það minnsta er formaður nefndarinnar með þetta hæfi sem um er talað. Ég vil líka undirstrika að það er ekki hver sem er sem velst í þessar nefndir. Það er engin tilviljun í matsnefnd og það er engin tilviljun á bak við það. Það hefur ætíð verið og mun verða áfram vandað þar til verka þannig að fólk rísi undir þeirri ábyrgð sem þarf sannarlega að vera í þessu mikilvæga hlutverki sem matsnefndin þarf að sinna á hverjum tíma sem er að leysa úr deilum um ýmis atriði um framkvæmd þessara laga eins og arðskrár og slíka hluti, ef ég kann þetta rétt.

Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins ramma það inn hér í stuttu innleggi hver væri rótin að þessu máli í dag og setja hana í samhengi við ákvörðun löggjafans frá 1923. Við erum enn að fást við það að beita þessari löggjöf til verndar, vaxtar og viðgangs viðkvæmum samfélögin í sveitum á Íslandi þannig að arðurinn og nýtingin af þessum mikilvægu hlunnindum og geysilega verðmætu hlunnindum sem eru af nýtingu lax- og silungsveiðihlunninda verði áfram til uppbyggingar úti í sveitum. Þetta er varfærið skref að mínu viti. Við gætum örugglega haft 63 skoðanir á því í þessum þingsal hversu langt við eigum að ganga í þessum efnum. En þetta held ég að sé mjög mikilvægt skref. Við höfum fundið það, alþingismenn og þeir sem hafa tekið þátt í stjórnmálaumræðu á undanförnum árum, að fólk hefur áhyggjur af samþjöppun eignarhalds á bújörðum á Íslandi. Það á sér fyrst og fremst stað á jörðum sem hafa þau hlunnindi sem við ræðum um hér. Það er ekki að mínu viti sama vandamál uppi með jarðir og söfnun þeirra í þröngt eignarhald sem ekki hafa slík hlunnindi á bak við sig. En allt þetta ber að taka alvarlega. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þá sé löggjafinn að stíga það skref sem þarf á þessum tíma. Síðan koma upp aðrar aðstæður og önnur sjónarmið sem þarf að vinna með áfram.