151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[13:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í ljósi orða hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur verð ég að árétta að ég er búinn að gera nákvæmlega allt rétt í þessu máli sem framsögumaður málsins, nákvæmlega hvern einn og einasta hlut. Ég hef beðið um gesti þegar það er viðeigandi, sem komu þegar það var viðeigandi. Ég lagði fram nefndarálit til nefndarinnar snemma í síðustu viku, og er búinn að biðja hv. þingmann í tvígang eða þrígang um að setja málið á dagskrá. Orðin í morgun frá hv. þingmanni voru þau, samkvæmt mínum skilningi, að þetta mál færi ekki á dagskrá. Þess vegna stend ég hér í pontu í dag. Ég vil bara halda því til haga að ég gerði allt rétt og málefnalega í þessu máli. Ég er búinn að ráðfæra mig við þingsköp, búinn að ráðfæra mig við reglur forsætisnefndar og fólk sem þekkir þær betur en ég. Þó vil ég fagna þeim orðum hv. þingmanns að málið komist á dagskrá. Það eru gleðifréttir. Ég fagna því. En ég minni á það að friðurinn sem hefur ríkt hér á þingi á kjörtímabilinu er ekki sjálfsagður.