151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

frétt RÚV um Samherja.

[13:22]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Einhver mikilvægasta auðlind í hverju lýðræðissamfélagi er frjálsir fjölmiðlar þar sem fagleg og gagnrýnin umfjöllun veitir valdamönnum aðhald og almenningi upplýsingar. Frjáls fjölmiðlun snýst ekki bara um eignarhald heldur vinnubrögð og fagmennsku. Ríkisútvarpið er og á að vera frjáls fjölmiðill í almannaeigu, í þjónustu einskis nema eiganda síns, sem er íslenska þjóðin.

Dæmi um slíka fréttamennsku var í nóvembermánuði 2019 þegar upplýsingar komu fram í fréttaþættinum Kveik í Ríkisútvarpinu um starfshætti fyrirtækisins Samherja í Namibíu. Í kjölfarið hófst sakamálarannsókn sem enn stendur, þar sem menn eru með réttarstöðu grunaðra. Varnir fyrirtækisins hafa ekki falist í því að hrekja það efnislega sem kom fram í þessum þáttum heldur í því að sverta heimildarmenn og veitast að fréttamönnum sem efnið unnu með kærumálum til siðanefndar og dreifingu á áróðursmyndböndum þar sem sérstaklega hefur verið vegið að Helga Seljan, fréttamanninum sem bar hitann og þungann af þáttagerðinni. Fyrirtækið neitar að standa fyrir máli sínu við Ríkisútvarpið og svara efnislegum spurningum en heldur því þráfaldlega fram að málið snúist um heiftarhug og hatur viðkomandi fréttamanns og raunar allra stofnunarinnar, rétt eins og Ríkisútvarpið geti í sjálfu sér haft einhverja skoðun eða tilfinningar gagnvart starfsemi Samherja. Ekki fer á milli mála að ætlun forsvarsmanna fyrirtækisins er að hræða fréttamenn frá því að sinna vinnu sinni.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um skoðun hennar á þessu athæfi og hvort hún styðji ekki Ríkisútvarpið nú þegar að stofnuninni er sótt af mönnum sem telja sig yfir umfjöllun hennar hafna í krafti auðs og valda.