151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi væri lausnin fólgin í því að við myndum taka upp stjórnarskrána sem hefur legið til grundvallar ansi lengi. Þá yrði það hreinlega bundið í stjórnarskrá að íslenska þjóðin hefði þennan rétt. En við þurfum ekkert að leita mjög langt til að finna dæmi í Evrópusambandinu um að þetta hafi einmitt verið gert. Í Danmörku var þjóðaratkvæðagreiðsla sem leiddi það af sér að þeir tóku ekki upp evruna. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla var ekki rengd af Evrópusambandinu á nokkurn hátt og þá má líka nefna að sú þjóðaratkvæðagreiðsla leiddi líka af sér að ýmsar aðrar reglugerðir og tilskipanir voru ekki teknar upp, t.d. tilskipun um hvernig greiða ætti úr dómum sem falla í einu Evrópuríki gagnvart öðru, þ.e. hvernig fullnusta dóma á að fara fram. Þetta er bara eitt af fjölmörgum málum þar sem ríkið Danmörk, sem er fullvalda, hefur nýtt fullveldi sitt til þess að vera öðruvísi en hin ríkin í Evrópusambandinu. Það eru til mörg dæmi um þetta. Þegar Bretar voru í Evrópusambandinu stóðu þeir einhvern veginn fremstir í flokki í því að vera með alls konar sérstöðu í hlutum sem yfirleitt var engin sérstök ástæða til að vera með sérstöðu í. Bretar eru bara skrýtnir, og ég segi það sem breskur ríkisborgari.

En í alvöru talað: Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki vandamálið. Íslenskur almenningur hefur alla burði til þess að hafa pólitíska aðkomu að málum, bæði í íslenskum stjórnmálum og í Evrópustjórnmálum, ef pólitíska stéttin hér á Íslandi myndi bara leyfa það.