151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[14:15]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur haft fjögur ár til að sýna hvað þau ætla að gera marga flotta hluti í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og eflingu hagkerfisins. Maður heyrir fólk stæra sig af því að hérna sé opið og frjálst hagkerfi og allt í góðum málum. Ég átta mig á því að síðasta ár hefur ekki verið auðvelt, en það liggja fyrir fleiri hillumetrar af skýrslum um þær viðskiptahindranir sem eru til staðar á Íslandi og flestar eru heimatilbúnar. Við erum með lagaumhverfi sem hyglir sérhagsmunum. Við erum með lagaumhverfi sem er óaðlaðandi fyrir erlendar fjárfestingar. Við erum með efnahagsumhverfi þar sem sívaxandi hluti alls arðs fer í að mata tröllvaxið lífeyrissjóðakerfi. Við erum með peningaumhverfi þar sem örmynt sveiflast sem lauf í vindi. Við erum með pólitískt umhverfi þar sem árangur og velsæld er í sterkri fylgni við flokksaðild. Við erum með nýsköpunarumhverfi þar sem ríkisstjórnin leggur niður stóran hluta stuðningsumhverfisins fyrir nýsköpun án þess að það liggi fyrir framtíðaráætlun um hvað skuli gera. Við erum með pólitískt umhverfi þar sem hagstjórnin er á grundvelli beinlínis afsannaðra kenninga. Við erum með hugmyndaumhverfi þar sem thatcherismi ræður enn ríkjum og við erum með atvinnuumhverfi þar sem aldrei hefur verið nein heildstæð stefna.

Þessu öllu mætti breyta. Flestu af þessu mætti auðveldlega breyta. Að það hafi ekki enn gerst er ákvörðun. Öll okkar hagsæld, sem þó er mikil, byggist fyrst og fremst á síendurteknum hvalrekum og dugnaði þjóðarinnar þrátt fyrir pólitískt reiðuleysi. Atvinnuleysi er pólitísk ákvörðun. Skortur á húsnæði er pólitísk ákvörðun. Fátækt á Íslandi er pólitísk ákvörðun. Þetta eru allt saman pólitískar ákvarðanir. Það væri hægt að laga þetta.