151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta er frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Með öðrum orðum gengur þetta út á að framlengja ákvæði um að hægt sé að nýta séreignarsparnaðinn upp í húsnæðislán.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að lesa nefndarálitið þar sem það er bara nokkrar línur:

„Með frumvarpinu er lagt til að heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar í tengslum við íbúðarhúsnæði til eigin nota, samanber ákvæði til bráðabirgða XVI og XVII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og ákvæði til bráðabirgða LV í lögum um tekjuskatt, verði framlengd um tvö ár, til 30. júní 2023.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir ritar undir nefndarálitið með þeim fyrirvara að hún telur aðgerðina ekki sjálfbæra til lengri tíma. Yfirvöld verði að gera áætlun um úttekt séreignarsparnaðar sem byggist á gögnum, greiningum og þörfum. Taka verði ákvörðun um það hversu lengi aðgerðin verði í gildi.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.“

Undir þetta stutta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Jón Steindór Valdimarsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Eins og fyrr sagði skrifar Rósa Björk Brynjólfsdóttir undir það með fyrirvara.

Virðulegur forseti. Mig langar við þetta tækifæri að segja að ég er ekki bara hlynnt nefndarálitinu og þessum breytingum heldur tel ég þær mikilvægar. Ég hef lengi litið þannig á að það að eignast eigið húsnæði sé í eðli sínu mikilvægur lífeyrissparnaður. Það er ljóst og kemur ágætlega fram í greinargerðinni með frumvarpinu frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að þetta eru aðgerðir sem farið var í á sínum tíma, fyrst 2014, og voru þá hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Það er alveg rétt að aðstæður þá voru með öðrum hætti en þær eru núna, þ.e. heimilin í landinu skulduðu mun meira en þau gera í dag. Það var kannski hvatinn til að ráðast í þessar aðgerðir á þeim tíma. Þær hafa verið framlengdar síðan þá, þ.e. ákvæði sem varðar það að fyrstu íbúðarkaupendur geti tekið út séreignarsparnað og nýtt í útborgun á fasteign en líka að aðrir geti nýtt ákveðinn hluta af séreigninni sinni á ári hverju til að greiða niður fasteignalán.

Mig langar að segja að ég skil þá umræðu sem átti sér m.a. stað í nefndinni í tengslum við málið um að spurning væri hversu lengi þetta ætti að halda áfram og hvort það væri sjálfbært. Það er náttúrlega ákveðin hræðsla því að lífeyrissjóðsgreiðslurnar okkar skipta máli og séreignin skiptir máli og er ætluð til þess tíma þegar fólk hættir störfum. Þá finnst mér mikilvægt að tekið sé inn í myndina að það að eiga húsnæði og þurfa ekki að greiða af fasteign þegar til efri áranna kemur og fólk fer að nýta lífeyrissjóðsgreiðslur er í sjálfu sér mikill lífeyrissparnaðar.

Virðulegur forseti. Ég held að þetta mál sé hið besta og ég fagna því að okkur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi tekist að vera sammála um að leggja til að þetta frumvarp verði samþykkt.