151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þarna er komið inn á mjög stórt og viðamikið mál sem er í sjálfu sér flókið en um leið einfalt. Ég deili því miður ekki bjartsýni hv. þingmanns um að vaxtahækkunin verði ekki mikið meiri en þetta. Ég tel, og reyndar segja það nú meiri spámenn en ég í fjármálakerfinu, að vextir muni hækka og fara upp undir 3% á næstu misserum, sem er náttúrlega gríðarlega mikil hækkun á vöxtum og hefur mikil áhrif á lán þegar þau eru svo mikil sem raun ber vitni hjá mjög mörgum aðilum. En þetta endurspeglar það að hér tölum við ekki um það sem mestu máli skiptir. Það er hvernig stendur á því að við erum með svona flókið vaxtaumhverfi. Við erum með verðtryggð og óverðtryggð lán. Hv. þingmaður minntist á að vonandi styrkist gengið. Já, já, það styrkist með reglulegu millibili og það veikist með reglulegu millibili. Og allt veldur það sveiflum og veldur því að við á Íslandi borgum það sem oft er kallað Íslandsálag á fjármagnskostnað okkar. Það er álagið fyrir það að við höfum kosið að halda úti eigin gjaldmiðli, það kostar einfaldlega fé. Það er sá kostnaður sem mestu máli skiptir og til að geta komið þessu í eitthvert vitrænt horf þarf auðvitað að ráðast á vandann en ekki einblína á það að reyna að plástra og reyna að gera gott úr hlutum sem allir vita að munu á endanum ekki takast.