151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Lög um opinber fjármál. Ég ætla nú að viðurkenna að sá sem hér stendur er kannski ekki heitasti aðdáandi þess kerfis sem teiknað er upp í lög um opinber fjármál en þau innleiddu engu að síður ákveðinn aga í ríkisfjármálum sem vantaði sárlega.

Eitt af því sem lög um opinber fjármál áttu að gera var að draga úr vægi fjáraukalaga, draga úr þeirri freistingu stjórnvalda hverju sinni að reikna bara með hluta af rekstrarkostnaði ríkisins á fjárlögum og bæta síðan upp mismuninn frá því sem raunin var með fjáraukalögum sem bólgnuðu oft töluvert út. Þess vegna eru nokkuð skýr ákvæði í lögum um opinber fjármál þess efnis að fjáraukalög eigi að snúast um tillögur til breytinga á fjárheimildum til að mæta útgjöldum ríkissjóðs sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga eða teljast nú orðin brýn eða óhjákvæmileg vegna breyttra aðstæðna.

Alltaf þegar við fáum fjáraukalög í fangið er þetta það fyrsta sem við ættum að spyrja okkur að: Eru þetta ófyrirséð útgjöld eða ekki? Og það hefur sennilega sjaldan verið jafn skýrt hversu fyrirséð mörg af þessum útgjöldum voru og akkúrat í dag. Til dæmis var megnið af þeim ágætu vinnumarkaðsaðgerðum sem lagðar eru til í frumvarpinu aðgerðir sem lagðar voru til í desember síðastliðnum af hinum ýmsu minni hlutum í fjárlaganefnd en felldar hér í þingsal af stjórnarliðum. Sumarstörf fyrir námsmenn, ráðningarstyrkir og endurráðningarstyrkir myndi ég halda að væru allt tillögur eða útgjöld sem voru það lítið ófyrirséð að þau voru beinlínis lögð til í desember. Ef við tökum bara þessa liði saman þá erum við að tala um á níunda milljarð af þeim rúmu 14 milljörðum í útgjaldaauka sem lagt er til í þessu frumvarpi. 9 af 14 milljörðum eru útgjöld sem eru ekkert mjög ófyrirséð. En þeim tengd eru hins vegar útgjöld sem voru fyrirséð í desember og tillögur um þau felldar og rata ekki hingað inn, sem ég sakna. Hér er t.d. Hefjum störf-verkefnið um að skapa sumarstörf fyrir námsfólk. Þá er ekki úr vegi að nefna þá margtuggðu kröfu stúdentahreyfingarinnar að tryggja stúdentum, sem eru samhliða námi á vinnumarkaði, rétt til atvinnuleysisbóta. Þetta þyrfti ekki einu sinni að vera það stór útgjaldaliður. Ef allt fer á besta veg og efnahagsástandið batnar og ef Hefjum störf-verkefnið skapar öll þau störf sem þarf þá þjónar réttur stúdenta til atvinnuleysisbóta engu öðru en að vera öryggisnet fyrir fólk þannig að það þurfi ekki ofan á allt annað að hafa áhyggjur af grundvallarframfærslu sinni yfir sumarmánuðina, sem síðan hefur áhrif á allt næsta ár vegna þess að námslánakerfið gerir ekki ráð fyrir því að fólk sé tekjulaust í þá þrjá mánuði sem námshlé stendur yfir. Grunnframfærsla Menntasjóðs námsmanna, sem er vel að merkja of lág, miðar við níu mánaða framfærslu menntasjóðsins sem síðan er bætt með þriggja mánaða vinnu einstaklinganna. Og ef enga vinnu er að fá er fólk bara í vondum málum. Þetta öryggisnet væri svo ofboðslega dýrmætt fyrir hvern einn og einasta námsmann sem það gæti gripið. Það hljótum við að vilja sem samfélag, að auðvelda fólki að vera í námi frekar en að gera því erfiðara fyrir.

En hvað með ófyrirséð útgjöld sem komið hafa fram í umræðunni frá því að við samþykktum fjárlög í desember? Þau hafa nefnilega ekki öll ratað hingað inn, útgjöld sem eru brýn og er ekki endilega hægt að láta bíða til næsta hausts og næstu fjárlaga og næsta árs. Þar langar mig að nefna þrjá útgjaldaliði ef mér vinnst tími til:

Í fyrsta lagi loftslagsmálin. Það var nefnilega þannig að ríkisstjórnin dró það svo lengi að setja sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum, vegna þess að hún vildi bíða eftir því að kolafíklarnir væru búnir að semja við restina af Evrópusambandinu um sameiginleg markmið sem Ísland gæti svo teikað, að aðgerðaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram uppfærða í júní á síðasta ári endurspeglar ekki nýju markmiðin um 55% hjá Evrópusambandinu heldur þau gömlu, um 40%. Fyrir vikið eru markmiðin sem fjárlög þessa árs byggja á 40% en ekki 55% samdráttur í losun og markmiðin í fjármálaáætlun sem var samþykkt í desember eru sömuleiðis 40% en ekki þau 55% sem ríkisstjórnin tilkynnti eiginlega sama dag og fjárlög voru samþykkt að hún ætlaði að undirgangast. Þannig að á sama tíma og forsætisráðherra var á fundi með kollegum sínum í Evrópu að lýsa því yfir að Ísland ætlaði að ganga undir regnhlíf Evrópusambandsins um 55% samdrátt í losun samþykkti stjórnarmeirihlutinn fjárlög fyrir þetta ár sem ekki endurspegluðu þann metnað.

Sem betur fer hefur verið brugðist við þessu í uppfærðri fjármálaáætlun sem samþykkt var hér í síðustu viku. Þar var farin sú leið að bæta við 1 milljarði í aukin framlög til loftslagsaðgerða, sem bent var á að myndi nú ekki ná að standa undir þeim aukna metnaði sem talað væri fyrir. Það er meira að segja svo að í fréttatilkynningu með þessu er tekið fram að áherslan hafi verið á að forgangsraða verkefnum sem stuðla að mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, þó að síðan sé reyndar helmingur verkefnanna aðgerðir sem er ýmist erfitt að meta eða heyra ekki undir Parísarsáttmálann. Þannig að meira að segja ábatamatið af þessum milljarði orkar tvímælis. En við afgreiðslu fjármálaáætlunar reiknuðu fulltrúar í fjárlaganefnd sig niður á aðrar upphæðir. Ef við göngum út frá fyrri útreikningum ríkisstjórnarinnar sem réttum gætu hærri upphæðir en þessi milljarður staðið undir þeim aukna metnað sem talað var fyrir. Þá er náttúrlega upplagt að nota fjáraukalögin sem við höfum í höndunum í dag til að ekki myndist bil á milli áranna 2020 og 2022, eins og stefnir í. Auknu framlögin til loftslagsmála vegna metnaðar sem boðaður var í desember síðastliðnum eiga að sjálfsögðu, forseti, að ná yfir yfirstandandi ár líka. Þess vegna er svo undarlegt að ríkisstjórnin, sem blés í alla lúðra þegar þessum milljarði var smurt ofan á loftslagskaflann í fjármálaáætlun, hafi sleppt því að setja sambærilegan milljarð inn í fjáraukalögin sem komu hér til þingsins á sama tíma og við vorum að afgreiða fjármálaáætlun. Hvort þetta er yfirsjón eða með vilja gert skal ósagt látið, en þetta þarf einfaldlega að laga í umfjöllun nefndarinnar um málið.

Þetta var fyrsta mögulega ófyrirséða atriðið sem ég sakna í þessu fjáraukalagafrumvarpi.

Annað atriði sem mig langar að nefna er sjálfstæð innlend mannréttindastofnun sem dómsmálaráðherra boðaði fyrir tveimur eða þremur árum að til stæði að koma á fót, enda ber Íslandi skylda til þess samkvæmt alþjóðasamningum til að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Í því áformaskjali kom fram að það myndi kosta um 60 milljónir á ári að reka slíka stofnun. Síðan komu fjárlög og fjármálaáætlun til þingsins síðastliðið haust þar sem sagt er að ekki standi til að setja þessa stofnun á laggirnar vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir stofnuninni í fjármálaáætlun. Eins og dómsmálaráðherra væri algerlega ótengdur því ferli sem fjármálaáætlun og fjárlög fylgja þá kom dómsmálaráðherra til okkar og sagði: Því miður, við eigum ekki pening í þetta. Í því skyni að hjálpa dómsmálaráðherra við að koma þessari mannréttindastofnun á laggirnar þá lagði ég fram breytingartillögu við fjárlög og fjármálaáætlun síðastliðið haust um að auka útgjaldaramma málefnasviðsins um þær 60 milljónir sem vantar. Sú breytingartillaga var felld, en í febrúar síðastliðnum sagðist ríkisstjórnin hafa ákveðið að skipa starfshóp um að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun, eins og atkvæðagreiðsla um fjárlög hefði bara aldrei átt sér stað. Þá kemur fram í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins að þar sem gildandi fjármálaáætlun geri ekki ráð fyrir fjármagni þurfi að leita leiða til að koma stofnuninni á fót. Leiðin blasti náttúrulega við þinginu í desember; það hefði verið hægt að samþykkja breytingartillögu þess sem hér stendur. Og auðvitað blasir við að núna þegar við erum með fjáraukalög í höndunum væri þinginu í lófa lagið að bæta úr þessu, að einfalda þessum starfshópi Stjórnarráðsins að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun sem uppfylli Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, að einfalda þeim starfshópi verkið með því að gera bara ráð fyrir fjármunum í það.

Nú er árið hálfnað þannig að við þyrftum ekki einu sinni að stefna að 60 milljóna útgjöldum, 30 duga fyrir seinni helming ársins. Og þá værum við allt í einu farin að stíga alvöruskref í áttina að því að uppfylla samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Virðulegur forseti. Ég sé að ég hef bara komist yfir tvö af þeim þremur atriðum sem ég ætlaði að tæpa á í þessari ræðu. Mér sýnist nú að ég verði að biðja virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá til að geta komið því þriðja og síðasta að í stuttri ræðu hér síðar á dagskránni.