151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[19:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hérna fjáraukann. Ég ætla aðeins að koma að nokkrum atriðum í því máli. Vissulega er staða ríkissjóðs erfið eftir veirufaraldurinn og hér er verið að reyna að afgreiða eitthvað af þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í sem þetta frumvarp gengur út á. En það eru nokkur önnur atriði sem ég ætlaði að gera hér að umtalsefni. Í fyrsta lagi eru það hjúkrunarheimilin, sem nokkrir aðrir þingmenn hafa reyndar komið inn á. Það er í tilefni af því að í fjáraukalögum á að veita u.þ.b. 1 milljarð króna til að stoppa í það gat sem þar er, sem er að mínu mati langt frá því að vera nægilegt vegna þess að þessi vandi er ekki nýr, hann er búinn að vera viðvarandi árum saman og kallað hefur verið eftir leiðréttingu árum saman. Það hefur sífellt verið skorið niður, löngu fyrir veirufaraldurinn. Það er sífellt verið að skera niður fjárveitingar til þessa málaflokks þar sem hjúkrunarheimilin eru, rekstur þeirra, og þau eru í raun og veru þvinguð til samninga með þeim hótunum að annars fái þau ekki nauðsynlegar fjárveitingar til að ná að reka sig í hvert skipti. Þetta er eitt dæmi um það. Þarna á að veita 1 milljarð, sem er langt frá því að vera nægilegt til að rétta við þann gífurlega hallarekstur sem þar er og sem er staðfestur í skýrslu sem nýlega var gerð og kom út fyrir nokkrum vikum síðan. Í niðurstöðum þeirrar úttektar sem þar var gerð kemur fram að það vantar 2,7 milljarða á ári fyrir hjúkrunarheimili til að ná endum saman. Það er engin smáupphæð. Og hér á að veita 1 milljarð með þeim skilyrðum að hjúkrunarheimilin samþykki að framlengja samninginn um tvo mánuði, þ.e. til loka febrúar á næsta ári.

Þetta er í raun birtingarmynd vinnubragða ríkisstjórnarinnar, sérstaklega á heilbrigðissviði. Það er þessi árátta að fresta vandanum þótt ekki sé nema í einn til tvo mánuði. Þetta er dæmi um það. Þarna á að fresta þessum stóra vanda, velta honum á undan sér í tvo mánuði til viðbótar. Á meðan blæðir þessum hjúkrunarheimilum og sveitarfélögin hlaupa frá þessu skipi, sem þau hafa gert undanfarið, hvert á fætur öðru. Þetta lendir allt í fangi ríkisins sem ég hef efasemdir um að geti rekið þetta betur eða ódýrarar en þeir aðilar sem standa í þessu í dag. Þetta er svona og ég vildi vekja athygli á þessu. Þarna er vandi sem ekki á að taka á. Það á bara ekki að taka á honum eins og er um mjög margt annað á heilbrigðissviði undir stjórn þessarar ríkisstjórnar. Menn leita til útlanda eftir aðgerðum. Það eru send sýni erlendis þegar næg þekking og mannskapur er hér innan lands til að gera það sama. Nei, þá er betra að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Þeir sjá miklum ofsjónum ef veita á eitthvert fé til innlendra aðila, ég tala nú ekki um ef það eru einkaaðilar. Það er algert eitur í beinum þessarar ríkisstjórnar, hún fær bara, ég veit ekki hvort á að segja uppköst, en hún fær alla vega í magann af því ef útlit er fyrir að greiða þurfi einhverja fjármuni hugsanlega til einkaaðila, ég tala nú ekki um ef hugsanlega er einhver möguleiki á því að einhvers staðar myndist einhver hagnaður af slíku.

Það er þessi vandi. Þessi ríkisstjórn verður kannski frægust fyrir það að velta vandanum á undan sér og í hendurnar á næstu ríkisstjórn. Það sama er með samgöngu- og fjárfestingarinnviði. Hér var blásið í herlúðra um að nú ætti að fara í innviðauppbyggingu. Og hver er svo raunin? Raunin er sú, sem við lásum fyrir nokkrum vikum síðan, að opinberar fjárfestingar hafa dregist saman um 10% árið 2019 og um rúm 10% 2020. Þetta er þessi aukning í fjárfestingum.

Herra forseti. Menn geta talað og talað um að gera eitthvað en það gerist ekki neitt. Til að eitthvað gerist þarf að gera eitthvað. En það er ekkert verið að gera. Verið er að tala og verið er að boða eitthvað. En þetta á allt að gerast hvenær? Í tíð næstu ríkisstjórnar? Ríkisstjórnin sem verður kosin í haust á að gera þetta allt; hún á að taka á vanda hjúkrunarheimila, hún á að taka fjárfestingarvanda innviða. Hún á líklega að klára þær samgönguframkvæmdir sem menn boða núna alveg stanslaust í öllum fréttatímum, að það eigi að gera eitthvað síðar, ekki núna heldur síðar. Þetta er það sem þessi ríkisstjórn verður kannski frægust fyrir, að fresta vandanum, velta vandanum á undan sér. Gott dæmi um það eru hjúkrunarheimilin. Hver á að taka á þessum vanda? Ekki þessi ríkisstjórn? Nei, einhver önnur.

Ég vildi vekja athygli á þessu.

Ég ætla líka að vekja athygli á fleiri hlutum, herra forseti, ef ég má tímans vegna. Það er sú staða sem komin er upp víða í opinbera kerfinu, þ.e. með tilkomu lífskjarasamninganna. Með tilkomu lífskjarasamninganna hefur komið upp afleit staða á sjúkrahúsum, hjá löggæslu og hjá vaktavinnufólki með styttingu vinnuvikunnar. Það fer nú kannski ekki hátt en maður heyrir utan af sér að þessar stofnanir eru í hinum mestu vandræðum með að fjármagna þetta, með að manna þetta. Og hvað gerist? Ég var að lesa núna frétt sem birtist bara fyrir klukkutíma síðan, um að búið væri að lofa 900 milljónum til lögreglunnar þannig að hún gæti tekið á þessum vanda sem var augljós fyrir löngu síðan — 900 milljónir. Það er það sama þar. Þetta frestar vandanum nægilega lengi, líklega, þannig að þetta lendir í fangi næstu ríkisstjórnar, þessar 900 milljónir til að bæta við lögreglumönnum. Einhverjir forsvarsmenn lögreglunnar sögðu að það vantaði 75 lögreglumenn. Hvað tekur marga mánuði fyrir 75 lögreglumenn að klára þessa 900 milljónir? Þetta er bara einfalt reikningsdæmi. Það er ekki langur tími. Það er svona u.þ.b. líf þessarar ríkisstjórnar. Þannig að þarna á líka að fresta vandanum, alveg eins og vanda hjúkrunarheimilanna sem var löngu fyrirséður. En á þarna að henda smápeningum inn.

En svo er annað, herra forseti, sem ég ætla að ræða áður en ég gleymi því. Ég hef ekki lúslesið þetta fjáraukafrumvarp en ég hef ekki séð þessa 900 milljónir í þessu frumvarpi. Það væri kannski gaman að fá svör við því hvort þær finnist í þessu fjáraukalagafrumvarpi, 900 milljónir. Eru menn að lofa stofnunum hátt í milljarði án þess að það sjáist hér í nýframlögðu frumvarpi til fjáraukalaga — nýframlögðu? Og þingið er enn starfandi þannig að það er enn þá tími til að setja þetta inn í frumvarpið. En þetta eru vinnubrögðin, þetta lýsir vinnubrögðunum; það er búið að lofa fjármagni áður en það er komið inn í þingið og áður en það er komið inn í frumvarp sem er nýbúið að prenta. Þetta eru kannski vinnubrögðin. Þetta eru smáskammtalækningar, herra forseti, smáskammtalækningar til skamms tíma. Eins og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu segir í Morgunblaðinu í morgun: Þetta er ánægjulegt en dugir þó ekki til í þennan fjársvelta málaflokk.

Það sama má segja um löggæsluna. Það er málaflokkur þar sem við höfum kallað eftir því í áratugi að lögreglumönnum verði fjölgað og lögreglan verði mönnuð eins og kröfur hafa verið um í mörg ár. Afleiðingarnar hjá lögreglunni, eins og hefur verið núna undanfarið, þ.e. með breyttu vaktafyrirkomulagi vegna styttingar vinnuvikunnar, eru þær, að sögn formanns Landssambands lögreglumanna í nýlegu viðtali, að það fækkar bara á vöktunum. Og vöktunum fjölgar til þess að ná styttingunni. Hvernig er það gert? Með því að fjölga mönnum? Nei, með því að fækka mönnum á hinum vöktunum. Í staðinn fyrir að vera kannski tveir á vakt úti á landi þá er einn á vakt. Í staðinn fyrir að vera sex þá eru þeir fjórir til fimm, eftir því hvað embættið er stórt. Þetta kemur skást út, að sögn formannsins, á höfuðborgarsvæðinu þar sem það sér minna á þó að það fækki örlítið á vöktunum. En úti á landi er þetta afleitt. Og þó að þessi innspýting komi upp á 900 millj. kr., ef það er rétt að ráðherra hafi lofað þessu án þess að við sjáum þess merki í þessu frumvarpi, þá mun hún einungis duga í nokkra mánuði. Þannig að þessar smáskammtalækningar er víða að finna.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að staða ríkissjóðs er gerbreytt frá því sem var fyrir kannski 14 mánuðum síðan og við tekur vinna. Það er ærið verkefni að snúa þessu til baka. Ég er talsmaður þess að við snúum þessu þannig til baka að við vöxum út úr þessum vanda, þ.e. atvinnulífið. Því verði gert kleift að ná sér mjög hratt og ég held að það séu allar forsendur til þess. Þannig vinnum við okkur út úr þessu, náum fyrirstöðu á einhverjum árum. En ég óttast auðvitað eins og margir aðrir að hér taki við vinstri stjórn sem ætlar að skattleggja sig út úr þessum vanda og þeir hafa að talað fyrir því. — Ég sé að hv. þm. Andrés Jónsson hleypti í brúnir. — Þeir hafa bara talað fyrir því sjálfir. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður komi upp í þessa pontu og tali um að það sé lausn á öllum vandamálum ríkissjóðs að skattleggja og ráða fleiri opinbera starfsmenn. Viljum við það? Viljum við Reykjavíkurmódel hér, gegndarlausa útgjaldastefnu og skattaaukningu, skattaáþján? Nei, herra forseti. Ég held að það sé ráð einmitt á þessum tímum að vinna sig út úr þessu með því að hleypa lífi í atvinnulífið og leyfa því að vaxa og ná þessu til baka, þeim árangri sem við höfum misst niður á nokkrum árum. Þannig held ég að sé best að gera, enda er vandinn ærinn eins og ég hef bent á.

Löggæslan. Þar þarf að taka á og það þarf að styrkja hana, ekki bara vegna þess að lífskjarasamningarnir og stytting vinnuviku kalli á það, heldur almennt séð í ljósi nýlegra atburða sem opnuðu augu okkar fyrir uppgangi skipulagðra glæpahópa. Þar er verk að vinna, herra forseti, og ég held að við megum alls ekki láta það ógert að efla lögregluna svo hún geti tekist á við þann vanda. Það má alls ekki gerast. En auðvitað er hætt við því ef menn ætla að hlaupa á eftir hverju sem kallað er eftir, gæluverkefnum, herra forseti, sem mér hefur orðið tíðrætt um í þessum ræðustóli, en ekki raunverulegum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Og eitt af því eru hjúkrunarheimilin. Við þurfum auðvitað að standa við það fyrirheit sem gamla fólkinu hefur verið gefið, að fólk geti átt hér ánægjulegt, áhyggjulaust ævikvöld.