151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[14:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst mönnum fara svolítið sumum hverjum eins og refnum gagnvart hinum gómsætu berjum, að þau séu samt súr. Þetta er gott mál. Verkaskiptingin milli Alþingis og Stjórnarráðsins er á hreinu og hún er lögbundin báðum megin. Alþingi setur lög um þingfararkaup og þingfararkostnað og þar er m.a. fjallað um ferðakostnað, reglur fyrir þingmenn. Stjórnarráðinu ber að útfæra sambærilegar reglur gagnvart ráðherrum vegna þess að þeir ferðast ýmist í hreinum embættiserindum eða eru þingmenn og frambjóðendur í aðdraganda kosninga.

Ég vil upplýsa að það er þegar búið að setja í farveg í forsætisnefnd að endurskoða lög um þingfararkaup og þingfararkostnað í heild og skrifstofu er falin ágætisundirbúningsvinna. En hafi menn af þessu miklar áhyggjur þá situr hér í salnum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Má ég biðja hann um að vera svo góðan að koma hingað upp og svara því: Mun hann tafarlaust samræma reglur um ferðakostnað ráðherra þessum lögum þegar þau verða komin?