151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

breyting á dönskum lögum um móttöku flóttamanna.

[13:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hann er þá væntanlega að spyrja að því hvort við myndum einhliða vilja vinna með Dönum að því að hætta að taka á móti fólki í gegnum alþjóðlega verndarkerfið og aðeins taka á móti fólki í gegnum kvótaflóttamannakerfið. Ég held að ná þurfi breiðari samstöðu um verkefnið í allri Evrópu og tel einsýnt að staða þessara mála gæti verið betri í dag. Ná þarf meiri samstöðu og meiri árangri í Evrópu svo það skili sér fyrir fólk sem er á flótta. Það eru yfir 26 milljónir manna á flótta í heiminum og í kvótaflóttamannakerfinu er ákveðin forgangsröðun, þar er fólk sem er í mestu neyðinni og kemst ekki hingað af sjálfsdáðum. Þess vegna höfum við líka verið að reyna að fjölga í þeim hópi hérlendis og reyna að hafa kerfið okkar um alþjóðlega verndarhlutann sambærilegt því sem gerist í löndunum í kringum okkur, svo þar verði þeim að sama skapi forgangsraðað sem eru í mestu neyðinni og hafa ekki alþjóðlega vernd annars staðar. Einnig er frumvarp hér í þinginu til að hraða þeirri málsmeðferð til að hún sé sambærileg því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Ég held að þær breytingar séu nauðsynlegar til að ná betri árangri í þessum málaflokki og til að hjálpa fleirum af þeim sem koma hingað og þurfa á alþjóðlegri vernd að halda. Á meðan löndin í Evrópu eru svona ósamstiga tel ég mikilvægt að við mörkum okkur skýra stefnu um hvernig við ætlum að hjálpa þeim sem þurfa mest á því að halda í þessu kerfi.

(Forseti (SJS): Forseti biðst velvirðingar á því að það er einhver ólund í klukkunni og tímamælingunni, en forseti reynir að finna út úr því upp við forsetaborðið.)