151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[13:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að bæta nokkrum orðum við í seinni ræðu minni í þessu máli sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Ég fagna frumvarpinu. Það er skref í rétta átt þó að ég hefði vissulega viljað sjá að ríkisstjórnin hefði brugðist fyrr við vitneskju um mansal á Íslandi, en það hefur viðgengist í þó nokkurn tíma. Ríkislögreglustjóri gaf út mjög áhugaverða skýrslu í ágúst 2010, fyrir 11 árum, þar sem vel er farið yfir þessa hluti. Manni bregður við að lesa það sem þar kemur fram. Í skýrslunni kemur fram, þar sem rætt er um hverjir séu þolendur mansals, að mjög mikilvægt sé að hafa í huga að hugtakið mansal geti tekið til allra og kyn, aldur, ríkisfang, kynþáttur og aðrir auðkennandi þættir breyti þar engu. Jafnframt er vakin athygli á því að í Evrópusamningi um aðgerðir gegn mansali frá árinu 2005, sem Ísland hefur skrifað undir, er tekið fram að samþykki viðkomandi fyrir þeirri misnotkun sem viðkomandi verður fyrir beri í vissum tilvikum að hafa að engu. Það á við um einstaklinga sem eru yngri en 18 ára og þá einstaklinga sem samþykkt hafa misneytingu eftir að hafa sætt ógnunum, ofbeldi, þvingunum, svikum, blekkingu og misnotkun af hálfu valdameiri aðila eða misneytingu sem er til komin vegna bágrar stöðu þolandans. Einnig er fjallað um hver sé munurinn á mansali og smygli á fólki. Því er oft ruglað saman. Ég ætla ekki að fara yfir það en vek athygli á því í þessari skýrslu og ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn kynni sér skýrsluna.

Ég vil líka nefna að það er mikilvægt að almenningur sé svolítið vakandi fyrir því hvar mansal getur átt sér stað. Í skýrslunni eru einmitt nefnd dæmi um starfsemi þar sem mansal kunni að vera á ferð. Það er mjög athyglisvert, og mér þótti það sláandi þegar ég las þessa skýrslu, að sjá hve víða mansal getur verið í samfélaginu. Maður hafði svo sem hugmyndir um vændi sem hér er tekið fram og framleiðslu á klámi, framleiðslu barnakláms, eins og líka kemur fram, en síðan eru fleiri þættir nefndir; skipulögð hjónabönd, þvinguð hjónabönd og þjónustustörf á heimilum, barnapössun og vinna í fjölskyldufyrirtækjum. Hér eru nefnd hreingerningarfyrirtæki, bifreiðaverkstæði, byggingarvinna, steypuvinna og landbúnaðarstörf. Áttum okkur á því. Þetta getur viðgengist í landbúnaði líka, og síðan er talað um framleiðslu, flutning og dreifingu fíkniefna. Fleiri atriði eru talin upp en þetta sýnir okkur hversu víða þetta getur verið í samfélaginu og hvers vegna það er ákaflega mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um þessa hluti og þekki þessi einkenni sem eru í sumum tilfellum mjög sláandi.

Í skýrslunni er einnig kafli sem fjallar um það hvernig bera eigi kennsl á þolendur mansals og er mikilvægt að fólk kynni sér það vegna þess að mansal getur þess vegna leynst í húsi nágrannans. Það er því mjög mikilvægt að maður hafi ákveðna þekkingu á því með hvaða hætti þetta getur birst og láti þá viðkomandi yfirvöld og lögreglu vita. En það er líka annað vandamál sem hefur tengst þessu, það er algengt að fórnarlömb mansals beri alla vega í upphafi lítið traust til lögreglu og yfirvalda og gefi jafnvel rangan vitnisburð. Það er þá ótti við gerendurna sem liggur þar að baki og ég tel mjög mikilvægt að þeir sem koma að þessum málum, eins og lögreglan, hafi alla þá þekkingu sem þarf. Það þarf ákveðna menntun til að þekkja þessi einkenni, þekkja hegðun fórnarlambanna og viðbrögð. Það er ákaflega mikilvægt. Maður spyr sig hvort lögreglan hafi öll þau úrræði sem hún þarf til að bregðast við og hafi þá það fjármagn sem þarf til að standa fyrir námskeiðum og öðru slíku, senda starfsmenn erlendis á námskeið til að kynna sér þessi mál o.s.frv. Þetta eru allt mjög mikilvægir þættir sem ég vildi koma hér á framfæri.

Ég vil svo aðeins í lokin, herra forseti, koma inn á annað sem tengist mansali og því að við getum t.d. látið gott af okkur leiða í þróunarsamvinnu. Ég nefni samstarfslönd okkar í þróunarsamvinnu, eins og Malaví, Úganda, Síerra Leóne og Líberíu, en þau tvö síðastnefndu eru meira í tengslum við fiskveiðar og þannig stuðning. Í öllum þessum löndum viðgangast barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum kvenna, eins og t.d. í Líberíu þar sem 50% allra kvenna hafa orðið fyrir slíku. Þetta er náttúrlega gríðarlega sorglegt og alvarlegt og við erum að styðja þessi lönd með heilmiklum fjármunum og láta gott af okkur leiða og erum með starfsfólk í þessum löndum. Ég tel að við eigum líka að nýta tækifærið og koma því á framfæri við stjórnvöld í þeim ríkjum að okkur stendur ekki á sama um þessi mál og viljum fylgjast vel með því hvernig gengur að draga úr meinsemdinni sem er í þessum samfélögum, oft og tíðum einhvers konar ritúal eða hefðir sem hafa viðgengist í hundruð ára. Í Malaví er t.d. búið að banna barnahjónabönd en það gengur hins vegar mjög erfiðlega að framfylgja þeim lögum. Þá spyr maður sig: Hvers vegna? Er það vegna þess að viðkomandi stjórnvöld fylgja því ekki nógu fast eftir? Þar getum við komið inn og bent á að stjórnvöld í þessum löndum verði að taka sig á.

Mér finnst eðlilegt, þegar við erum í þróunarsamvinnu og erum að setja fjármuni í þessi lönd, að við séum vakandi yfir slíkum hlutum því að það eru, eins og ég sagði, skelfilegir hlutir sem gerast í þessum löndum, limlestingar kvenna og svo barnahjónabönd. Ég held t.d. að 10% barna í Malaví sem eru yngri en 15 ára gangi í hjónaband og það er heilmikill fjöldi barna. Í hópi barna sem eru yngri en 18 ára viðgangast barnahjónabönd í 50% tilvika. Tölurnar eru svipaðar í Úganda þannig að við eigum að nýta þetta tækifæri. Ég vil hvetja utanríkisráðherra til þess hér og nú. Ég vil hvetja utanríkisþjónustuna, þróunarsamvinnuhluta utanríkisþjónustunnar og þá starfsmenn sem eru í þessum löndum til að vera vakandi og koma því á framfæri að okkur stendur ekki á sama. Auðvitað er menntun lykillinn að þessu og þá eigum við að stuðla að því. Við höfum komið að menntun grunnskólabarna í þessum löndum og við eigum svo sannarlega að beita okkur fyrir því að það sé fræðsla um þessi mál, að þetta sé eitthvað sem eigi ekki að viðgangast og sé ekki eðlilegt í samfélögum, barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum kvenna.

Ég skora hér með á utanríkisráðherra að hann beiti sér sérstaklega fyrir þessu í gegnum þróunarsamvinnuna, að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vinna bug á þeirri hræðilegu meinsemd sem slíkir hlutir eru í þessum löndum.