151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að í máli mínu áðan þegar ég var að fara yfir nefndarálitið, þá hefur málið verið unnið í mikilli samvinnu við sveitarfélögin og við þá þjónustuveitendur og stofnanir sem koma að þessari samþættingu. Einnig fengum við til okkar hagfræðing sem fór yfir málið og taldi að þegar búið væri að reikna þetta út yrði tímabundinn kostnaður þetta, við innleiðingu og breytingar og annað. En um leið og það væri frá yrði arðsemi þessa verkefnis, þessarar samþættingar, þessar breytingar á kerfunum, á pari við Keflavíkurflugvöll og Kárahnjúkavirkjun. Það kemur ekki fram í þessum gögnum en það kom fram í nefndinni. Hv. þingmaður situr ekki í nefndinni og ég hef fullan skilning á því að hann sé að spyrja um þessi atriði. Ég geri bara ráð fyrir því að það verði þá í næstu fjárlögum. Eins og fram kom er gert ráð fyrir því í næstu fjárlögum en ekki í fjármálaáætlun, ég hef ekki endilega skýringar á því. En komið hefur fram í þessari vinnu að þetta er unnið í mikilli samvinnu við sveitarfélögin. Ég geri ráð fyrir því að þetta komi alltaf til með að kosta eitthvað eins og allar breytingar á svona stóru kerfi. En það kemur miklu meira til baka en fer út og ég hef engar áhyggjur af kostnaðinum eða að þetta verði okkur um of.