151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[15:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er sérstaklega athyglisvert og það hafði farið fram hjá mér að þetta hefði verið rætt sérstaklega með þessum hætti, sem gerir það í raun enn athyglisverðara; að hæstv. félagsmálaráðherra Ásmundur Einar Daðason — ég gef mér að hann hafi lesið þetta frumvarp yfir áður en hann lagði það fram — hafi beinlínis skrifað hér inn í texta greinargerðarinnar, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti hefur ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.“

Þetta er væntanlega sami maðurinn, hæstv. ráðherra, sem svarar því til að þetta sé allt á hreinu og skrifar svo hér í greinargerðinni að ekki hafi verið vikið að þessu að nokkru leyti. Reiknað er með því að innleiðingartímabilið standi til ársins 2024 og hér stendur að eingöngu sé gert ráð fyrir fjármögnun á árinu 2021. Þá eru árin 2022, 2023 og 2024 ófjármögnuð í þessu efni og innleiðingin er áætluð um mitt ár. Þannig er raunverulega búið að fjármagna hálft ár af þessum þremur og hálfu árum sem innleiðingarferli þessara breytinga á að taka. Mér finnst þetta ótrúlega bratt hjá hæstv. ráðherra.

Þegar maður skoðar síðan með hvaða hætti málið var rifið út úr hv. velferðarnefnd, í andstöðu við það að fresta gildistökuákvæði málsins til þess að tryggja m.a. að persónuverndarsjónarmiðum sé haganlega fyrir komið, þá verður þetta allt enn skrýtnara þegar allt bendir til þess að eingöngu sé búið að fjármagna sex mánuði af þeim 40 sem innleiðingarferlið á að ná yfir. Það var ekki bein spurning í þessu til hv. þingmanns, en þetta vekur mikla furðu.