151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Vilhjálm Árnason út í hans ræðu. Hann líkti þessu frumvarpi eða þeim málum sem þarf að taka á til að koma þessu á við að snúa risastóru olíuskipi. Það sem ég óttast í því er að við sáum risastórt olíuskip í Súesskurði, eða gámaflutningaskip, það stærsta í heimi, og við sáum hvernig það fór, það voru ekki neinir smáerfiðleikar við að ná því.

Ég hugsa oft um þennan tíma og sátt. Það hlýtur að vera svolítið sorglegt að við skyldum ekki hafa gefið okkur aðeins meiri tíma í velferðarnefnd og náð aðeins meiri sátt. Ég vona að við náum því þegar málið fer aftur til velferðarnefndar. Ég hef líka spurt mig um þessa biðlista. Það vantar kannski inn í þetta raunhæfa leið til að taka á biðlistum. Við verðum að átta okkur á því að Covid er líka að koma núna inn í það. Síðan hefur komið fram að það er 80% aukning inn á BUGL, barna- og unglingageðdeild, og við erum með 9% barna, það er nýjasta dæmið, sem eru að íhuga sjálfsvíg. Þetta bætist allt ofan á það sem er fyrir. Þess vegna spyr ég: Hefur hv. þingmaður ekki sömu áhyggjur og ég af því að við höfum eiginlega byrjað í fyrsta lagi á öfugum enda? Við áttum að vera búin að spýta í lófana og lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna, vera tilbúin með áætlun um hvernig við ætlum að taka á biðlistunum og hvernig hlutirnir muni ganga fyrir sig áður en þessi skipti verða og svo er það líka tíminn, við hefðum kannski átt að gefa okkur hálft ár (Forseti hringir.) lengra fram í tímann til að innleiða þetta og láta það taka gildi.